Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Herinn sakaður um árásir á þorp í Malí

09.06.2020 - 06:33
Mynd með færslu
Fjölmennt friðargæslulið hefur verið í Malí síðustu ár. Mynd:
Stjórnvöld í Malí ætla að rannsaka ásakanir þorpsbúa í Mopti héraði um að stjórnarhermenn hafi orðið 43 þorpsbúum að bana í síðustu viku. Vopnaðir menn í herklæðum réðust í þorpið Binedma á föstudag og urðu 29 að bana. Þeir kveiktu jafnframt í húsum. Tveimur dögum fyrr réðust menn í þorpið Niangassadiou og drápu fjórtán. 

Embættismenn í þorpunum segja árásarmennina hafa einblínt á fólk af Fulaniþjóðinni. Hirðingjaþjóðin hefur átt í erjum við landbúnaðarþjóðina Dogon síðustu ár. Þær hafa skipst á árásum á þorp og hafa tugir látið lífið undanfarin ár. Nú telja embættismenn í þorpunum hins vegar að einkennisklæddir hermenn hafi verið að verki. Þeir hafi umkringt Binedma á pallbílum og ráðist á markað í Niangassadiou. 

Ef satt reynist að herinn hafi gert árásirnar verður hörðum aðgerðum beitt gegn yfirmönnum hersins, segir í yfirlýsingu sem stjórnvöld sendu frá sér á sunnudag.