Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heilsársvegur í Árneshrepp gæti dregist um tvö ár

09.06.2020 - 09:28
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Nú hillir í tímamót í Árneshreppi á Ströndum þar sem heilsársvegur inn í sveitarfélagið er í matsferli. Í tillögu að uppfærðri samgönguáætlun er framkvæmdum hins vegar frestað um tvö ár.

Heilsársvegur um Veiðileysuháls hefur verið baráttumál íbúa Árneshrepps um áratugaskeið. Vegasamgöngur þangað lokast í um þrjá mánuði á ári þegar snjómokstur liggur niðri.

Fyrirhugað er að færa veginn til svo auðveldara reynist að halda honum opnum árið um kring. Þá fer veglínan upp fyrir byggðarkjarna í Djúpavík.

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins. Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti í Árneshreppi, segist vona að nýr vegurinn geti orðið sem lyftistöng fyrir hreppinn.

„ Ég vona að þetta geti verið eitt af baráttutækjunum í því að auka aftur styrk þessa byggðarlags og líka með bættri tækni í fjarskiptum og þess háttar munum við upplifa örlítið breytt landslag.“

Gæti tafist um tvö ár

Gert er ráð fyrir 700 milljónum í framkvæmdir sem áttu að hefjast 2022. Í tillögu að uppfærðri samgönguáætlun sem nú er til umræðu á þingi færast hins vegar fjárveitingar til ársins 2024. Aðspurð segist Eva ekki geta trúað því að seinka eigi endurbótum eina ferðina enn. Alþingi hljóti að tryggja að þetta hagsmunamál sveitarfélagsins verði ekki tafið frekar.

Ekki öll orustan unnin í vegamálum fyrir hreppinn

Heilsársvegur yfir Veiðileysuháls væri mikil búbót fyrir Árneshrepp. Hins vegar væri einungis hálfur sigur unninn í samgöngumálum þar sem heilsársvegur alla leið inn í hrepp væri ekki kominn í höfn.

Norðurhluti Reykjarfjarðar og þá sérstaklega Kjörvogshlíð hafa einnig reynst erfið viðureignar að vetrinum. Þar þyrftu endurbætur að verða til að heilsárssamgöngur væru tryggðar norður af Reykjarfirði, þar sem meirihluti hreppsbúa á aðsetur.

„ Auðvitað eru fleiri hindranir í veginum þannig að það sé allur hreppurinn kominn í þetta góða samband en það þarf að byrja einhvers staðar og svo sjáum við hvernig þetta þróast áfram,“ segir Eva.