Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

COVID-bóluefnispróf á músum lofar góðu

09.06.2020 - 23:03
epa08199489 A staffer works in the pop-up Huoyan Laboratory specialized in the nucleic acid test on the novel coronavirus (2019-nCoV) in Wuhan, Hubei province, China, 06 February 2020 (issued 07 February 2020). The P2-level biosafety lab was built in five days, designed to perform 10,000 coronavirus tests per day to cope with the outbreak. The virus, which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 638 people and infected over 31,000 others, mostly in China.  EPA-EFE/SHEPHERD ZHOU CHINA OUT
 Mynd: EPA-EFE - FeatureChina
Vísindamenn við Kaupmannahafnarháskóla tilkynntu í dag að bóluefni, sem þeir hafa unnið að og gagnast á gegn COVID-19, lofi góðu. Tilraunir á músum sýni góða virkni bóluefnisins. Vísindamennirnir vonast til að geta hafið klínískar rannsóknir innan árs.

Í tilkynningu á vefsíðu háskólans segir að frá því að kórónaveiran, sem veldur  COVID-19 hafi tekið að breiðast út, hafi hópur 14 vísindamanna unnið að þróun bóluefnisins. Nú hafi mikilvægur áfangi náðst, undanfarna tvo mánuði hafi þeir prófað lyfið á músum og útkoman lofi góðu.

„Niðurstöðurnar sýna að bóluefnið eykur magn mótefna í músum og hindrar sýkingu,“ hefur Danska ríkisútvarpið, DR, eftir Adam Sander Bertelsen, einum rannsakendanna.

Ekki víst hvernig virknin verður í mönnum

Bertelsen tekur fram að þó að bóluefnið virðist virka vel á veiruna í músum sé ekki þar með sagt að það muni virka eins í mönnum. „Við vitum það ekki fyrr en það verður prófað á mönnum. Við getum að minnsta kosti ekki útilokað  óvæntar og ófyrirséðar aukaverkanir,“ segir hann í samtali við DR. 

Bóluefnið er samsett á tvennan hátt. Annars vegar af svokölluðu bindiprótíni eða  broddprótíni sem er á ytra byrði veirunnar og virkar nokkurn veginn eins lykill gengur að skrá. Hins vegar eru í henni tilbúnar veiruagnir. Þetta tvennt á að blekkja líkamann til að halda að hann hafi orðið fyrir árás kórónaveirunnar, en því fylgja engin einkenni. Gangi það eftir, mun líkaminn hefja framleiðslu mótefna sem gera fólk ónæmt fyrir veirunni. 

Annar rannsakendanna, Morten Agertoug Nielsen, segir í tilkynningunni á vef háskólans að mikilvægt sé að geta framleitt bóluefnið í sem mestu magni og á eins ódýran hátt og mögulegt er. Allt bendi til þess að það verði mögulegt.

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir