Alþjóðaheilbrigðisstofnunin dregst inn í pólitísk átök

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson
Ef Bandaríkin slíta sambandi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina bitnar það á baráttunni gegn lömunarveiki og þróun lyfja því framlag þeirra er eyrnamerkt þessum málaflokkum, segir Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi Sameinuðu þjóðanna. Héðinn Unnsteinsson, fyrrverandi starfsmaður stofnunarinnar, segir að hún hafi dregist inn í pólitísk átök Bandaríkjanna og Kína.

Skrifræðislegur samráðsvettvangur

Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur starfaði á geðheilbrigðissviði Alþjóðaheilbrigðisstofnuninnar fyrir 14 árum. Hann kannaði meðal annars stöðu geðheilbrigðismála í Austur-Evrópu, ferðaðist á milli landanna og heimsótti sjúkrahús og heilbrigðisráðuneyti. 

„Ég skrifaði svo langt minnisblað og fáraðist yfir því að enn skulu vera notuð búrarúm í Slóvakíu, Tékklandi og Ungverjalandi þar sem sjúklingar voru í búrum í rúmunum í sjúkrahúsunum. Þessar skýrslur fóru til WHO og fóru svo til viðkomandi lands og til viðkomandi heilbrigðisráðuneytis en lítið kannski breyttist.“

Alþjóðheilbrigðisstofnunin var stofnuð 7. apríl 1948. Stofnunin er gríðarlega stór um 7.000 manns starfa hjá henni í 150 löndum. Hún er samráðsvettvangur þjóða í heilbrigðsimálum.

Héðinn segir að upplifun hans af stofnuninni hafi verið sú að hún væri rosalega skrifræðisleg en geri þó gagn. 

„Gagnsemi hennar fannst mér fyrst og fremst liggja í samhæfingu aðgerða,  samhæfingu áhersla að deila niðurstöðum rannsókna og þar fram eftir götunum.“ 

Héðinn Unnsteinsson
 Mynd: Kastljós - RÚV
Héðinn Unnsteinsson, stefnumótunarsérfræðingur starfaði hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni frá 2003 til 2006. Hann vann á geðheilbrigðissviði Evrópuskrifstofunnar.

Áhrif COVID-19

Héðinn segir að staða stofnunarinnar gagnvart aðildarlöndunum sé snúin og misjöfn sem endurspeglast meðal annars í togstreitunni milli Trumps forseta Bandaríkjanna og stofnunarinnar nú þegar heilsufarssjónarmið og efnahagshagsmunir séu farnir að togast á.

„Og þá fara skoðanir eða yfirlýsingar stofnunarinnar að verða óþægur ljár í þúfu fyrir einstaka aðildarríki. Eins og ef til vill Bandaríkin sem segja: Við tökum ekki þátt í þessu lengur.“

„Ég er að segja það, hún hefur dregist inn í miklu meiri pólitík. Hún hefur verið að leika hlutverk í þessu leikriti lífsins, jafnvel á hliðarsviði en núna er hún bara komin á aðalsviðið og er orðin í átakalínu þessara tveggja stórvelda Bandaríkjanna og Kína.“

Mynd með færslu
Árni við lokað öryggissvæði utan við vinnustað hans Mynd: Árni Snævarr - Facebook
Árni Snavarr er upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum og hefur starfað þar í 15 ár

Framlag Bandaríkjanna eyrnarmerkt

Árni Snævarr, upplýsingafulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að Bandaríkin hafi verið hingað til stærsti einstaki fjárveitandi stofnunarinnar og lagt til 15% af öllum fjárveitingum til hennar. Þar á eftir komi sjóður Bills og Melindu Gates sem hafa greitt um 10% og síðan hafa Bretar einnig verið stór fjárveitandi. Framlög Bandaríkjanna hafi verið eyrnamerkt ákveðnum málum.

„Og þá erum við kannski aðallega að tala um baráttuna gegn lömunarveiki og svo til þróunar ýmissa lyfja. Það eru þessi mál sem munu líða fyrir það að Bandaríkin draga úr framlögum sínum. Ekki barátta gegn einhverjum hugsanlegum farsóttum í framtíðinni því þeirra framlög hafa farið að frekar litlu leyti í þá málaflokka.“

Pólitískar skipanir og vestræn áhrif

Styrr hafi verið um stofnunina nánast frá byrjun. Hún hafi verið gagnrýnd fyrir pólitískar skipanir og einnig hefur sumum þótt hún einbeita sér um of að lífsstílsvandamálum Vesturlandabúa frekar en að einbeita sér að því að uppræta sjúkdóma sem herja á þróunarríki.

„Þetta hefur kannski sumpart kristallast í því það var kosningabarátta fyrir nokkrum árum þegar Tedros núverandi forstjóri stofnunarinnar var kosinn og gegn honum var fulltrúi sem naut stuðnings Breta, Bretinn David Nabarro og þá voru Bandaríkin og Bretland og fleiri Evrópuríkin á bak við Nabarro en  Kína og þróunarríkin á bak við Eþíópíubúann.“

epa08209243 Tedros Adhanom Ghebreyesus, Director General of the World Health Organization (WHO), informs the media about the update on the situation regarding the novel coronavirus (2019-nCoV), during a new press conference, at the World Health Organization (WHO) headquarters in Geneva, Switzerland, 10 February 2020. The novel coronavirus (2019-nCoV), which originated in the Chinese city of Wuhan, has so far killed at least 910 people and infected over 40,000 others, mostly in China. The death toll from the novel coronavirus has surpassed the death toll from SARS epidemic of 2002-2003.  EPA-EFE/SALVATORE DI NOLFI
 Mynd: EPA-EFE - Keystone
Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar

Trump gæti skipt um skoðun 

Árni segir að eftir því sem maður kynnist alþjóðlegu samstarfi betur þá sér maður óneitanlega að það er mikill munur á því sem ráðamennn segja opinberlega í pólitísku skyni og hins vegar því sem ríkin fara fram á að gert sé. Trump hafi sent Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni lista yfir nokkur atriði 

„Þau voru ekkert ýkja mörg en þau voru öll svo sjálfssögð að það var ljóst að það yrði orðið við öllum kröfum Bandaríkjamanna og það var gefinn 30 daga frestur.“

„En Trump beið ekki þessa 30 daga heldur sleit hann þessu innan ég man ekki hvað 10 daga.“

Ekki sé víst að Bandaríkin slíti sambandi við Alþjóðaheilbrigðisstofnunina. Trump geti séð að sér, talið að það þjóni ekki hagsmunum Bandaríkjanna að fara út úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Hann geti líka verið búinn að gleyma þessu eftir hálft ár og einnig sé ekki víst að hann verði endurkosinn. 

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson

Kínverjar telja sig bera skarðan hlut

„Og reyndar sýnist manni að það sé meiri þörf á  Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni nú en nokkru sinni áður og kannski þarf hún meira fé. Hitt, hins vegar, er alveg ljóst að Kínverjar hafa talið sig bera skarðan hlut frá borði í alþjóðastofnunum almennt að þeir njóti ekki þeirra áhrifa sem íbúafjöldinn eða þetta stóra hagkerfi og þeir ættu tilkall til af þeirri ástæðu.“

Árni segir að ef Bandaríkjamenn slíti sambandi við stofnunina þá minnki andstaðan við það að Kínverjar nái meiri áhrifum innan hennar. Til lengri tima litið og til dæmis frá sjónarhorni Kína eða Indlands „þá eru Sameinuðu þjóðirnar og stofnanir þeirra algerlega afurð Bandaríkjanna og öll gildi og viðhorf og staðlar eru allir miðaðir við Vesturlönd en þó fyrst og fremst Bandaríkin.“

Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna byggist að hluta á bandarísku stjórnarskránni eins og sjá má á fyrstu orðunum í stofnskrársáttmála Sameinuðu þjóðanna. 

„Fyrstu orðin í stofnskrársáttmála Sameinuðu þjóðanna eru einfaldlega - það er notuð fleirtala í stað eintölu „We the people“ eða „We the Peoples“ þetta er augljóst dæmi og svo getum við sagt að mannréttindayfirlýsingin byggist á gildum frönsku byltingarinnar o.s.frv. En nú segja Kínverjar að þeir hafi önnur gildi sem byggist meira á stéttum, á heild, á þjóð o.s.frv. á meðan Vesturlandabúar leggja meira upp úr frelsi einstaklingsins.“

Vonar að átökin endurmóti stofnunina

Héðinn vonar að þessi átök verði til að styrkja stofnunina. Hún hafi verið gagnrýnd mikið og lengi fyrir að vera of mikið skriffinnskubákn, of miklar umbúðir og of lítið innihald

„Ég vonast til að þetta geti endurmótað hlutverk stofnunarinnar styrkt hana og bætt. En það þarf að skoða hlutverk hennar bara í samhengi við allar aðrar alþjóðastofnanir hvort sem þær eru á vegum Sameinuðu þjóðanna eða Evrópusambandsins, Evrópuráðsins eða hvers konar ríkjasamstarfs.“

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi