Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Flest gjaldþrot í ferðaþjónustu og byggingariðnaði

08.06.2020 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
88 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta í apríl. Af þeim voru 48 með virka starfsemi í fyrra, sem er 60 prósent meira en á sama tíma í fyrra. Flest fyrirtækin voru í byggingariðnaði eða tengd ferðaþjónustu.

Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Með virkum fyrirtækjum er átt við fyrirtæki sem annað hvort voru með veltu eða launþega á skrá í fyrra.  

Af þessum 48 fyrirtækjum voru 18 í ferðaþjónustu og tengdum greinum, 16 í byggingariðnaði og mannvirkjagerð, fjögur í heild- og smásöluverslun og 10 í öðrum atvinnugreinum.

Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta í apríl voru með 467 launþega að meðaltali yfir árið 2019 og 3,4 milljarða króna veltu. Þar af voru 276 launþegar hjá fyrirtækjum í einkennandi greinum ferðaþjónustu og var velta þeirra um 2,2 milljarðar króna.

Magnús Geir Eyjólfsson