Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Skúföndum fækkar mikið í Mývatnssveit

07.06.2020 - 21:43
Skúföndum á Mývatni hefur nú fækkað mikið í fyrsta skipti eftir áratuga fjölgun. Skúfönd hefur verið stærsti andastofninn á vatninu seinustu ár. Öðrum tegundum hefur einnig fækkað. Helsta ástæðan er fæðuskortur og að ungar komast ekki á legg.

Allt frá árinu 1974 hefur Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn haldið utan um fuglatalningu á Mývatni og nágrenni þess til að kanna stöðu einstakra tegunda og lífríkisins í heild. Talið er tvisvar á ári og í vikunni komu niðurstöður fyrri talningar ársins í ljós.

„Helstu niðurstöðurnar eru kannski þær að það er mikil fækkun á öndum, og þá aðallega skúfönd sem hefur verið langmest af mjög lengi. Hún hefur verið að færa sig upp á skaftið seinustu 50-60 ár á Mývatni. Núna er henni í fyrsta skipti að fækka verulega aftur.“ segir Árni Einarsson, líffræðingur og forstöðumaður RAMÝ.

Fækkað nánast um helming á þremur árum

Samkvæmt talningu ársins eru nú um 5000 skúfendur við vatnið en voru hátt í 10.000 fyrir 3 árum. Öðrum tegundum hefur einnig verið að fækka undanfarin ár eins og straumönd, flórgoða og toppönd. Sú fækkun heldur áfram og má fyrst og fremst rekja hana til fæðuskorts, en hornsíli er aðalfæða þeirra. 

„Það komast ekki upp ungar, núna árum saman eins og hjá straumöndinni. Hún hefur ekki komið upp, nánast engum ungum í nokkur ár og þá fækkar mjög í stofninum að sjálfsögðu af því að hann endurnýjar sig ekki og það sama er að gerast líka hjá toppönd núna.  Þetta er ekki svona augljós merki um hlýnun. Þetta eru merki um fæðubreytingar í vatninu. Það fækkar ákveðnum átutegundum en öðrum er að fjölga á móti.“ segir Árni. 

Óttast um straumöndina

Erfitt sé að segja með vissu hvort ástæðan sé náttúruleg sveifla og hvað sé hægt að gera, því að breytingar geti átt sér stað á vetrarstöðvum farfuglanna. Helstu áhyggjurnar nú séu afdrif straumandarinnar.

„Hún kemur ekki upp ungum þrátt fyrir að Laxá sé hennar aðalbúsvæði á Íslandi og í Evrópu þess vegna þar sem að straumöndin lifir bara á Íslandi af Evrópulöndunum. Við vitum að rykmýi er að fækka í Laxá en við höfum ekki hugmynd um af hverju það er. Rykmý er undirstöðufæða fyrir litla straumandarunga. “ segir Árni.