Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hvernig hófst ein versta mannúðarkrísa heims?

07.06.2020 - 07:30
epa08095891 PICTURES OF THE DECADE 

A Yemeni woman holds her malnourished child as he receives treatment as 1.8 to 2.8 million children are in acute food insecurity as the ongoing conflict causes food and fuel prices to soar, at the malnutrition treatment center, in Sana'a, Yemen, 06 October 2018.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
 Mynd: YAHYA ARHAB - EPA
Milljónir Jemena eru á barmi hungurdauða eftir fimm ára stríðsátök sem ekki sér fyrir endann á. En hvernig hófst þetta hörmulega stríð og hvers vegna? Eiga vesturlönd jafnvel sinn þátt í því að átökin halda stöðugt áfram þrátt fyrir að þar geisi ein versta mannúðarkrísa heims?

Arabia Felix - hin hamingjusama Arabía eða heppna Arabía. Þetta kölluðu landfræðingar fortíðarinnar það svæði sem við þekkjum nú sem Jemen. Grikkir og Rómverjar völdu þetta glaðlega nafn sökum þess hve indælt loftslagið var og hversu ríkt landið var af alls kyns landbúnaði og kryddum. En þar er varla hægt að finna meiri þversögn en þá að tengja Jemen nútímans við hamingju eða heppni. Ástandið í landinu er í raun átakanlega langt frá því og hefur verið árum saman. Hungursneyð, fátækt og eymd blasir við stærstum hluta Jemena.

Norður- og Suður-Jemen

„Jemen eru tveir hlutar, það er talað um Norður- og Suður-Jemen. Og þessir tveir hlutar voru sameinaðir 1990. Í svolitlu óðagoti,“ segir Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur. Hún þekkir Jemen betur en langflestir hér á landi. Sjálf þurfti hún að flýja frá Jemen með dætur sínar tvær kornungar árið 1994 og var talsvert í fjölmiðlum hér á landi á þeim tíma. Þá, eins og nú, var borgarastyrjöld í landinu. Hér ætlum við að einbeita okkur að þeirri sem nú geisar, gleymda stríðinu í Jemen. En til þess að skilja það sem er að gerast í dag, er nauðsynlegt að leggjast í örlitla söguskoðun.

„Ef þú skoðar þessa tvo hluta Jemen. Þá eru þetta í raun og veru menningarlega og trúarlega mjög ólíkir hópar. Þó að allir tengist hinni hamingjuríku Arabíu, eins og Jemen var kallað til forna - Felix Arabia,“ segir Guðrún Margrét.  

Og til þess að gera langa sögu mjög stutta, tók það áratugi að komast á þann stað að Norður- og Suður-Jemen varð loks sameinað. „Eftir 1990 á þetta að vera eitt land. En Ali Abdullah Saleh, sem tók við sem forseti 1978, hann tók það fram að það að vera forseti Jemen er eins og að dansa á hausnum á snákum. Það eru allir að reyna að bíta í þig,“ segir Guðrún Margrét.  

Ættbálkar og ólíkir þjóðfélagshópar

Jemenskt samfélag er að miklu leyti byggt upp af mismunandi ættbálkum, hollusta fólks liggur oft meira hjá ættbálkum sínum en einhverju þjóðríki sem heitir Jemen. Og það var langt í frá þannig að allir þessir ólíku hópar fólks væru ánægðir með sameiningu norðurs og suðurs. „Þetta var bara gert og reynum að gera þetta vel. En það var svo sannarlega ekki gert. Það sem að Ali Abdullah Saleh gerir í raun og veru ekki nægilega vel, að hann tekur ekki nógu mikið tillit til hópanna í Suður-Jemen,“ segir Guðrún Margrét.

Og allar götur síðan hafa ákveðnir hópar viljað fá aftur sjálfstæði frá norðrinu

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Guðrún Margrét með bjó í Jemen með tvær barnungar dætur sínar.

Arabískt vor í Jemen

Að einhverju leyti má segja að átökin í dag eigi rætur að rekja til arabíska vorsins svokallaða. Líkt og í Túnis, Sýrlandi og Líbíu og fleiri Arabalöndum þustu Jemenar út á götur þar sem ein helsta krafan var afsögn forsetans til þrjátíu og þriggja ára. Og í nóvember 2011 samþykkti hann loks að láta af völdum.

Við tekur varaforsetinn Abdrabbuh Mansur Hadi. Hann er meira að segja kosinn forseti í febrúar 2012, reyndar var hann einn í framboði. En við tekur viðamikið verkefni, að reyna loks - í eitt skipti fyrir öll - að ná sáttum allra þessara ólíku hópa fólks sem búa í Jemen.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Mótmælendur vildu sparka forsetanum.

„Það sem Hadi stýrir þarna er mjög merkilegt fyrirbæri og þetta er rosa sjaldan talað um. Það var ákveðið svona þjóðfundarástand í marga, marga mánuði í Jemen. Árið 2012 og 2013,“ segir Guðrún Margrét.

Hún segir að þarna hafi í raun tekist að gera það sem áður hafi verið reynt svo oft. Fjölmargir afar ólíkar hópar settust að samningaborðinu. Konur áttu sína fulltrúa, Jemen hefur lengi verið á meðal verstu ríkja í heimi hvað varðar kvenréttindi og kynjamisrétti. Þá ræddust við trúleysingjar og fulltrúar frá Al-Kaída. Og eftir margra mánaða viðræður voru þær langt komnar, í það minnsta voru komin einhvers konar drög að samningi. Ákveðið var að skipta Jemen í sex hluta, þá átti að semja nýja stjórnarskrá og erindrekar frá Sameinuðu þjóðunum mættu til leiks boðnir og búnir til aðstoðar. Svo fengu Hútarnir nóg, segir Guðrún Margrét.

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Guðrún Margrét hefur búið í Jemen og víða annars staðar í Mið-Austurlöndum.

Hútar í Jemen er fjölmennur minnihlutahópur sjía-múslima í Jemen. Þeim fannst þeir ekki vera að fá mikið fyrir sinn snúð í viðræðunum og á kantinum beið einnig Ali Abdullah Saleh, þið munið fyrrverandi forseti til þrjátíu og þriggja ára, sem var hrakinn frá völdum aðeins þremum árum áður. „Hann gerir samkomulag við Hútana. Sem erum fyrrum miklir óvinir hans og eiga mjög blóðuga sögu Hútar og Ali Abdallah Saleh en þeir sameinast þarna. Ráðast inn í Sanaa, taka yfir norðurhlutann,“ segir Guðrún Margrét.

Þarna er allt á suðupunkti í Jemen, landið aftur á barmi þess sem samningaviðræðurnar áttu að afstýra. Lítið þurfti til að borgarastyrjöld brytist út enn á ný. Og þá ákveða Sádi-Arabar að hefja loftárásir á Jemen.

Erindreki SÞ fær nóg

Fljótlega ákveður Jamal Benomar, sérstakur erindreki Sameinuðu þjóðanna í Jemen að hætta því starfi - í nokkru fússi. „Hann sagði það, að þegar Sádarnir ákveða að ráðast inn í Jemen, þá er í raun og veru þessar friðarviðræður algjörlega á lokastigi og eina sem átti eftir að ákveða var hver fengi forsetaembættið,“ segir Guðrún Margrét.

Hún segir að Hútar hafi meira að segja verið búnir að samþykkja að hörfa. En hvers vegna fór Sádi-Arabía að skipta sér af Jemen? „Hvernig þetta er sett í okkar vestrænu fjölmiðlum er það þannig að Sádarnir, þeir voru dauðhræddir við Hútana, sem voru orðnir mjög valdamikli, vegna tengsla þeirra við Íran. Það er alveg ljóst að þessi tengsl hafa verið stórlega ýkt,“ segir Guðrún Margrét.

Hún segir að þetta gott dæmi um að sé eitthvað endurtekið nógu oft verði það sannleikur (e. Self-fulfulling prophecy). „Vegna þess að þessi litlu samskipti sem voru - eins og ég minntist á áðan þá eru sem sagt Hútarnir og Íran þó bæði séu shía múslimar þá eru þeir mjög ólíkar útgáfur af shía Íslam og hafa allavega ekki á neinum trúarlegum forsendum haft samskipti en Sádarnir nýta þetta, segjast vera dauðhræddir og ná að sannfæra Bandaríkin.“

Þessu hafa fleiri en Guðrún Margrét haldið fram. Að tengsl Húta við Íran hafi ekki verið svo mikil í raun, allavega ekki til þess að byrja með. Þau hafi síðar styrkst eftir að Sádi-Arabía hóf hernað í Jemen.

Hernaðarbandalagið og vinir þess

En Sádi-Arabía hóf ekki í loftárásir í Jemen ein og óstudd. Myndað var hernaðarbandalag sem Sádar leiddu og leiða enn. Eitthvað hefur hvarnast úr því bandalagi en það samanstendur af nokkrum þjóðum - þar á meðal Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Egyptalandi og Marokkó. Hernaðarbandalagið nýtur einnig stuðnings Bandaríkjanna, Breta og Frakka. Sá stuðningur hefur helst verið í formi vopnasölu og þjálfunar. Það vakti athygli 2018 þegar fregnir bárust af því að hernaðarbandalag Sáda væri að nýta sér hermenn frá al-Kaída, ekki beint félagsskapur sem allir sækja í en Bandaríkjamenn voru fljótir að sverja af sér þau tengsl. Hvort sem það er satt eða ekki, um það verður ekki fullyrt hér, en það er staðreynd að vopnasala vesturlanda á sinn þátt í átökunum í Jemen. 

Átök á fjarlægum slóðum eru stundum ekki jafn fjarlæg og þau virðast. Stundum standa mál okkur nærri en við höldum, og þar er skemmst að minnast umfjöllunar Kveiks frá því fyrir rétt um tveimur árum.

Þar kemur fram að þrátt fyrir það að íslensk lög og alþjóðasáttmálar banni að vopn séu flutt til svæða, þar sem þau eru notuð gegn almenningi eða í stríðsglæpum hafi íslensk yfirvöld heimilað flutninga vopna til Sádi-Arabíu, þaðan sem þau berast til Jemens og Sýrlands.

Mynd með færslu
 Mynd: SIPRI - Twitter
Þessi ríki flytja inn mest af vopnum.

Það kaupir einmitt enginn í heiminum jafn mikið af vopnum og Sádar og ekkert ríki selur fleiri vopn en Bandaríkjamenn. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sænsku samtakanna The Stockholm International Peace Research Institute. Með öðrum orðum, það er hagur Bandaríkjamanna, og auðvitað fleiri vopnasöluþjóða, að áfram sé barist í Jemen. Hvar kaupa Sádar vopnin helst? Sjötíu og þrjú prósent allra þeirra vopna sem flutt eru inn koma frá Bandaríkjunum, þrettán prósent frá Bretlandi og rúm fjögur prósent frá Frakklandi. Hér er vert að taka fram að Þjóðverjar hafa stöðvað vopnasölu til Sádi-Arabíu og var bannið framlengt síðast í mars á þessu ári og gildir fram í september.

Hvað eru Sádar að gera í Jemen?

Víkjum aftur að árásum Sáda í Jemen sem hófust 2015 og með þeim það hræðilega stríð sem hefur geisað æ síðan. Ekki eru öll sannfærð um þá útskýringu Sáda að þeir hafi þurft að ráðast inn til þess að hafa hemil á Hútum sem hafi tengsl við erkióvinin Íran. En hvað fleira gæti legið að baki?

„Talað er um að hin svona raunverulega ástæða sé þetta lýðræðisbrölt á Jemen. Það náttúrulega passar ekki fyrir Sádi-Arabíu að hafa land, þeirra fátæku bræður í suður-arabíu, ef að þeim færi nú að takast að hafa einhverskonar lýðræðissamfélag, hvað segja þeirra minnihlutahópar? Og hvað þá shía múslimarnir Sádi-Arabíu,“ segir Guðrún Margrét.

Mynd með færslu
Hungur er einn af mörgum, skelfilegum fylgifiskum stríðsins í Jemen, og drepur þar fleiri börn en sprengjur og byssukúlur til samans Mynd:
Milljónir barna, kvenna og karla svelta í Jemen.

Afleiðingar stríðsins eru hræðilegar, sama hvernig á það er litið. Áður en stríðið braust út var Jemen þegar fátækasta land Mið-Austurlanda. „Það var algjört neyðarástand og mannúðarkrísa í gangi nú þegar 2014 og 2015 þegar þetta er að gerast,“ segir Guðrún Margrét.     

Á sama tíma og hernaðarbandalag Sáda réðst til atlögu var sett hafnbann á Jemen. Ekkert fer inn eða út og tilgangurinn, segja Sádar, að passa það að vopn flæði ekki inn í landið. „En á sama tíma er í raun og veru stöðvaðar allar, öll mannúðargögnin eru stöðvuð. Innflutningur á mat stöðvaður. Þannig í raun og veru bara má segja að síðan 2015 hafi bara hreinlega verið að svelta Jemena inni í landinu,“ segir Guðrún Margrét.

12 ára og tæp 13 kílógrömm

Í Jemen búa nærri 30 milljónir, yfir 20 milljónir búa við fæðuóöryggi og 10 milljónir manna eru beinlínis að svelta. Þrjár milljónir Jemena eru á vergangi í landinu. Og fólk kemst ekki langt. Einu landamærin eru að Óman, sem lítið hefur skipt sér af málum og er með harðlokuð landamæri og svo að Sádi-Arabíu. Fólk kemst því ekki neitt.

Ein þeirra sem er á flótta í eigin landi er hin 15 ára Ibtissam. Hún býr ásamt sjö systkinum sínum í tjaldi. Foreldrar hennar létust árið 2015. Ibtissam er eina fyrirvinna systkina sinna, ef svo má segja. Flesta daga nærast þau á tei og uppþornuðu brauði. Þau reiða sig einnig á nágranna sína, sem sjálf eiga úr afar litlu að moða. Í samtali við hjálparstarfsfólk segist Ibtissam sakna foreldra sinna mikið. Ég vildi að ég hefði dáið líka, en hver ætti þá að hugsa um systkini mín? - spyr hún.

Á vef OCHA, sem er samhæfingarskrifstofa Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, má lesa fleiri frásagnir úr reynsluheimi Jemena. Ein þeirra er saga Abrar, hún er ein þeirra tveggja milljóna barna sem eru alvarlega vannærð í landinu. Faðir hennar beið heima á meðan móðir hennar lagði í níu klukkustunda ferðalag á sjúkrahús. Abrar var tólf ára og tæp þrettán kíló þegar hún var lögð inn. Til samanburðar þá er meðalþyngd stúlkna á þessum aldri tæp fjörutíu kíló. Eftir nokkra daga á gjörgæslu var hún útskrifuð og fór aftur heim í þorpið sitt. Það fylgir ekki sögunni hvernig henni reiðir af í dag, sé hún á lífi.

Sameinuðu þjóðirnar vara við því að 30 af 41 verkefni á vegum hjálparsamtaka verði hætt á næstu vikum í Jemen ef ekki kemur til meira fjármagn. COVID-19 heimsfaraldurinn hefur orðið til þess að það hefur þurft að skera verulega niður fjármagn til hjálparstarfs. Fjármagnsins er nú þörf annars staðar. En það þýðir ekki að þörfin sé að minnka í Jemen, þvert á móti. Ef fram heldur sem horfir getur flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna ekki lengur veitt aðstoð sem fyrir milljónir manna er upp á líf og dauða.

Í vikunni bárust svo þær fregnir að blása ætti til söfnunar fyrir Jemen. Takmarkið var að safna 2,41 milljarði Bandaríkjadollara - hvorki meira né minna - fyrir aumingja stríðshrjáða Jemen. Það sem mörgum þótti skjóta skökku við að er að það var Sádi-Arabía sem fór fyrir söfnuninni með Sameinuðu þjóðunum. Þarna voru Sádar sagðir gefa með annarri hendinni og skjóta með hinni. Tilraun til þess að bæta ímynd landsins á alþjóðavísu sögðu aðrir. En hvernig gekk að safna þessum 2,41 milljarði dollara? Ekki mjög vel. 1,35 milljarður dollara safnaðist þó, eða vilyrði fengust fyrir þeirri upphæð. Sádi-Arabía var mjög örlát og ætlar gefa 500 milljónir dollara, Bandaríkin 225 og Bretar 200. Ísland lét ekki sitt eftir liggja og tilkynnti 30 milljóna króna framlag.

Afneitun eða gleymska?

Ástandið í Jemen er flókið, erfitt og átakanlegt. En það virðist ekki jafn mikið fjallað um það og stríðið í Sýrlandi sem dæmi. Gleymda stríðið, er stríðið í Jemen stundum kallað. „En svo veltir maður fyrir sér, er það gleymt eða er þetta bara afneitun? Þú veist, viljum við ekki horfast í augu við þetta?“ Spyr Guðrún Margrét.  

„Bandaríkin, Bretar og Frakkar styðja Sáda og bandalagið í þessu stríðsbrölti sínu. Ef að Bandaríkin myndu ekki styðja þá, þá myndu Sádarnir ekki geta staðið í þessu stríði.“

Hún segir að einnig gæti stundum tvískinnungi í umfjöllun um stríðið. „Þegar þú heyrir umfjöllun um þetta stríð á Íslandi, og bara alls staðar, er alltaf talað um Hútana sem eru studdir af Íran. En það er aldrei sagt Sádar og bandalagið sem eru studdir af Bandaríkjunum, Bretum og Frökkum. Vegna þess að ég held að, ég veit það ekki þetta er ekkert samsæri þetta er bara það að það er óhugnaður að tala um þetta stríð og það er mjög óhugnanlegt fyrir borgara í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi að átta sig á hvað þeirra stjórnvöld eru að taka beinan þátt í þessu stríði þar sem í raun er bara verið að svelta fólk til bana.“

epa08290183 Yemeni women hold a child as they pass a destroyed building targeted by a previous Saudi-led airstrike, at a neighborhood in Sanaa, Yemen, 12 March 2020. According to reports, UN special envoy to Yemen Martin Griffiths made his brief at the UN Security Council on his recent diplomatic efforts to halt the recent military escalation between Saudi-backed Yemeni forces and Houthis, warning that the ongoing military action could undermine peace efforts. He called for an immediate end to military action in Yemen as the armed conflict enters its fifth year since the fighting broke out in March 2015 after the Houthis dissolved the Saudi-backed government.  EPA-EFE/YAHYA ARHAB
Mikil eyðilegging er eftir loftárásir á höfuðborgina Sanaa. Mynd: EPA-EFE - EPA
Milljónir Jemena eru á flótta í eigin landi.

Það er erfitt og óhugnanlegt að horfa á og lesa fregnir af hörmulegum afleiðingum stríðsátaka. Hernaðarbrölt stórþjóða bitnar oftast verst á almennum borgurum. En þótt það sé erfitt og þótt að mörgum hér á litla Íslandi þyki ríki eins og Jemen okkur ansi fjarri þá er mikilvægt að fylgjast með.

„Það er náttúrulega mikilvægt bara að opna augun og sjá hvað er að gerast í umheiminum. Og ég tala nú ekki um ef það er eitthvað svona sem að við tökum þannig lagað beinan þátt í ég meina erum við búin að gera athugasemdir við vopnakaup, vopnasölu til Sádi-Arabíu og til Sameinuð furstadæmanna? Nágrannalöndin eru á kafi í þessari vopnasölu,“ segir Guðrún Margrét.

Hún bætir við: „Svo eiga Jemenar líka það skilið að umheiminum sé ekki alveg skítsama um þá. Af því að þannig líður þeim núna. Það er alveg á hreinu.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV