Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hópslagsmál, varðeldar og ölvun

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Gærkvöldið og nóttin voru annasöm hjá lögreglu og slökkviliði á höfuðborgarsvæðinu. Alls komu 102 mál á borð lögreglu frá því klukkan fimm síðdegis í gær þangað til klukkan fimm í morgun. Þeirra á meðal voru líkamsárásir og slagsmál.

Einn var handtekinn og settur í steininn í nótt, grunaður um líkamsárás eftir hópslagsmál í miðbæ Reykjavíkur laust upp úr miðnætti. Lögregla gekk þar á milli og skakkaði leikinn. Skömmu fyrir miðnætti var lögreglan kölluð til vegna hópslagsmála í póstnúmeri 103, þar sem Kringlan og Leitin eru. Þar hafði slegið í brýnu meðal samstarfsmanna sem ekki vildu aðstoð lögreglu.

Fimm sinnum var dælubíll á vegum Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu kallaður út í gærkvöldi og í nótt. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins voru útköllin ekki stórvægileg. Tveir bílar voru þó sendir að Esjumelum, dælubíll og tankbíll, þar sem eldur logaði í bílhræi. Í tvígang var tilkynnt um varðeld, sem varasamt er að kveikja í þurrviðriðinu. Í fyrra skiptið í Heiðmörk um kvöldmatarleitið. Þar voru um 15 manns við eldinn, en könnuðust ekki við að hafa kveikt hann. Í seinna skiptið var tilkynnt um varðeld í Elliðaárdal. Þar voru ungmenni að fagna próflokum. Þau fengu föðurlegt tiltal, að því er segir í dagbók lögreglu, og fræðslu um eldhættu sem getur stafað af slíkum eldi.

Lögreglunni barst svo tilkynning um hugsanlegan fund á mannabeinum í garði í Hafnarfirði um kvöldmatarleytið í gær. Lögregla segir að við nánari eftirgrennslan líti út fyrir að beinin séu úr hundi.

Íbúar í Garðabæ og Kópavogi tilkynntu um grunsamlegar mannaferðir en í báðum tilfellum var það á misskilningi byggt. 

Talsverð ölvun var á höfuðborgarsvæðinu. Einnig var mikið um hávaða frá samkvæmum í og við heimahús. Að sögn lögreglu gekk í flestum tilfellum vel að fá fólk til að lækka í sér og virða næturró annarra.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV