Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Colin Powell styður Biden í forsetaslagnum

epa04382827 Former US Secretary of State Colin Powell delivers remarks at the reception before the groundbreaking ceremony for the US Diplomacy Center, at the State Department in Washington DC, USA, 03 September 2014. US Secretary of State John Kerry was
 Mynd: EPA
Colin Powell, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur lýst yfir stuðningi við Joe Biden, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins í forsetakosningunum í haust. Það þætti væntanlega litlum tíðindum sæta, nema fyrir það að Powel sat í ríkisstjórn Repúblikanaforsetans George W. Bush.

Reuters greinir frá þessu og segir Powel þar með vera fyrstan áhrifamanna í Repúblikanaflokknum til að lýsa yfir stuðningi við keppinaut Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.

Powell var hershöfðingi í Persaflóastríðinu í forsetatíð George H. W. Bush og varð svo utanríkisráðherra í tíð sonar hans. Í viðtali á CNN sjónvarpsstöðinni sagði Powell að Trump væri óskilvirkur leiðtogi og að það hafi bara versnað frá því hann tók við embætti forseta.

„Ég get ekki með nokkru móti stutt Trump forseta í ár,“ sagði hann. Powell kaus ekki Trump í síðustu forsetakosningum, hann hefði fjarlægst stjórnarskrá landsins.

„Við erum með stjórnarskrá og við verðum að fylgja þeirri stjórnarskrá. Forsetinn hefur hins vegar fjarlægst hana.“

CNN segir Powell þar með kominn í sístækkandi hóp fyrrverandi valdamanna sem lýst hafa yfir óánægju með það hvernig Trump hefur tekið á mótmælum í landinu síðustu daga. Mótmælin hófust í kjölfar þess að lögreglumaður drap George Floyd í borginni Minneapolis í lok maí. Þau hafa síðan breiðst út fyrir Bandaríkin. 

„Ég tel að það sem við erum að sjá nú séu stærstu mótmæli sem ég hef nokkurn tímann upplifað. Ég tel þetta gefa til kynna að þjóðin sé að vitkast og að við ætlum ekki að sætta okkur við þetta lengur,“ sagði Powell.