Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Blaut tuska framan í Mývetninga

07.06.2020 - 20:04
Verðhækkanir eru boðaðar í einu matvörubúðinni í Mývatnssveit, eftir að nafni hennar var breytt. Sveitastjórinn í Skútustaðahreppi segir að hækkanirnar séu blaut tuska í andlitið í samfélag sem eigi fullt í fangi með að bregðast við fækkun ferðamanna.

„Með þessum gjörningi, að fara úr Kjörbúð í Krambúð, segja þeir að það sé verið að hækka verð hér að meðaltali um 7,7 prósent. Þetta er náttúrulega köld tuska framan í þetta samfélag hérna í Mývatnssveit því að hér erum við að glíma við mikla erfiðleika eftir COVID-faraldurinn. Hér stefnir í 30 prósenta atvinnuleysi og að fá þetta ofan í það allt saman eru gríðarleg vonbrigði.“ segir Þorsteinn Gunnarsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps.

Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa, segir í skriflegu svari til fréttastofu að rekstrarmódel Krambúðarinnar henti til að mæta þeirri eftirspurn sem sé til staðar og reyna að hafa upp í fyrirséð tekjutap þegar ferðamanna nýtur ekki við.

Lækkuðu verð fyrir heimamenn

Samkaup reka verslanir undir merkjum Nettó, Krambúðarinnar, Kjörbúðarinnar og Samkaupa. Fyrir tveimur árum var versluninni í Mývatnssveit breytt úr Samkaupum í Kjörbúðina. Þá lækkaði verðið um tugi prósenta, að sögn Þorsteins. Breytingin nú sé skref til baka. Þorsteinn segir að rökstuðningurinn haldi ekki vatni.

„Hann var sá að það munu náttúrulega ekki útlendir ferðamenn koma, og þar af leiðandi vilja þeir þá að Íslendingarnir séu að borga hærra verð fyrir vöruna, sem eru mjög sérstök rök. Rökin fyrir því að fara í Kjörbúðina á sínum tíma voru að koma til móts við heimamenn, fyrst og fremst. Íslendingana líka.“ segir Þorsteinn. 

Eru íbúar reiðir?

Já ég er nú búinn að vera sveitarstjóri hérna í fjögur ár og er nú bráðum að láta af störfum, en ég man ekki eftir öðru eins máli sem hefur vakið eins mikil viðbrögð hjá sveitungum mínum hérna. Þeir eru mjög reiðir yfir þessu og ég skil þá bara mjög vel.“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn sér fyrir sér að breytingar verði á verslunarháttum Mývetninga í framtíðinni.

„Það hefur verið áhugi annarra aðila á að koma hér inn á markaðinn, því að hér verður allt komið á fullt aftur í ferðaþjónustunni þá held ég að þetta sé nú gullnáma fyrir þessa þjónustuaðila.“