Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Órétti aldanna og klofin Ameríka

06.06.2020 - 07:30
Mynd: RÚV / RÚV
Síðustu daga og vikur hefur allt logað í Bandaríkjunum vegna morðsins á George Floyd, morðs sem varpar ljósi á rótgróið samfélagsmein sem hefur fengið að grassera í landinu allt frá stofnun þess.Í Heimskviðum er rætt um ofbeldi lögreglunnar gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum, og þann djúpstæða klofning sem hefur einkennt bandarískt samfélag síðustu ár, klofning sem virðist vera að ná nýjum hæðum.

Morðið á George Floyd og reiðin réttláta

Í pistlinum heyrum við hljóðbrot úr óhugnanlegri, tíu mínútna langri upptöku hinnar sautján ára Darnellu Frazier. Þar sést hvar lögreglumaðurinn Derek Chauvin krýpur yfir hinum 46 ára George Floyd í miðborg Minneapolis, með hnéð fast upp á hálsi hans. Floyd biður ítrekað um miskunn, og segist ekki geta andað. 

Skömmu síðar hætti George Floyd að anda og komst aldrei aftur til meðvitundar. Hann var myrtur af lögreglumanni sem grunaði hann um að hafa greitt fyrir sígarettupakka með fölsuðum 20 dollara seðli.

Daginn eftir fór upptaka Fraizer í dreifingu á samfélagsmiðlum. Chauvin og þremur öðrum lögreglumönnum var vikið úr starfi og sæta þeir nú ákæru fyrir morð. Þegar upptakan fór í dreifingu þusti fólk út á götur Minneapolis til að mótmæla. Einhverjir mótmælenda unnu skemmdarverk á lögreglubílum og næstu daga færðist hiti í leikinn. Lögregla beitti táragási og skaut gúmmíkúlum að mótmælendum, og frekari skemmdarverk voru unnin í borginni..

Því næst fóru mótmælin að berast til annarra borga í Bandaríkjunum en hvergi voru þau eins hörð og í Minneapolis, þar sem ríkisstjórinn greip til þess ráðs að kalla þjóðvarðliðið bandaríska til aðstoðar. 

Álengdar fjær stóð forseti Bandaríkjanna og fordæmdi framgöngu mótmælenda. Hann gerði gott betur en það, hart skal mæta hörðu, sagði hann og hótaði þeim öllu illu. Ofbeldið færðist í aukana í öðrum borgum og á síðasta degi maímánaðar létust alls sex manns í Indianapolis, St. Louis, Chicago, Oakland og Detroit. Öll dauðsföllin tendust mótmælum vegna morðsins á George Floyd á einn eða annan hátt.

Og svona hefur þetta verið síðustu daga. Þótt minna sé um skemmdarverk og gripdeildir, halda mótmælin áfram - ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur um heim allan. Hvernig stendur á því, spyr fólk sig um víða veröld, að linnulaust ofbeldi yfirvalda gegn svörtu fólki fái viðgengist, nærri tveimur öldum frá lokum þrælastríðsins?

Þrælar í Bandaríkjunum.
 Mynd: TRT World and Agencies
Þrælar í suðurríkjum Bandaríkjanna.

Þrælahaldið er erfðasynd bandarísku þjóðarinnar

„Það er stundum talað um þrælahald í Bandaríkjunum sem erfiðsyndina eða upprunasyndina. Bandarískt samfélag verður til á grunni þrælahalds og þrælahald er hluti af bandarískri sögu í árhundruð,“ segir Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

„Það hefur aldrei tekist að vinna úr þeirri arfleið. Þaning að þetta er lifandi ennþá. Bæði í afstöðu einstaklinga til fólks af afrískum uppruna, en líka í valdatengslum innan samfélagsins.“ 

Við lok bandarísku borgarastyrjaldarinnar 1865, þar sem norðurríkin undir forystu Abrahams Lincoln báru sigurorð af suðurríkjunum, sem höfðu lýst yfir sjálfstæði frá Bandaríkjunum, var þrælahald formlega afnumið. Borgarastyrjöldin er því stundum nefnd þrælastríðið, og að því loknu var svörtum karlmönnum veittur kosningaréttur til viðbótar við afnám þrælahalds.

Mismunun gagnvart svörtum heldur áfram

En þótt þrælahald hafi verið formlega afnumið hélt mismunun í garð svartra Bandaríkjamanna áfram, og það í gegnum lagasetningar. Tilraunin til að afnema kefisbundna mismunun í garð svarts fólks í Bandaríkjunum, gekk því ekki.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

„Það tókst ekki, vegna þess að til valda í Washington komust öfl sem unnu gegn því að þannig að suðurríkin héldu áfram þessari forlegu mismunum, sem er við lýði þar alveg fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Og reyndar eftir það líka,“ segir Guðmundur.

Til að gera langa sögu stutta þá biðu suðurríkin ekki boðana eftir ósigurinn í borgarastyrjöldinni, og komu á lögum sem tryggðu áframhaldandi aðskilnað milli hvítra og svartra, og stuðluðu að verulega skertum lífsgæðum og mannréttindum svartra. Þessi lög, Black Codes, gerðu það að verkum að svart fólk mátti aðeins búa á ákveðnum stöðum og vinna ákveðin störf. Aðskilnaðurinn var svo í raun formfestur með Jim-Crow lögunum svokölluðu, sem draga nafn sitt af niðrandi skopstælingu á svörtum.

Lögin tóku gildi í suðurríkjunum og gerðu það að skólar, íbúðahverfi, almenningsgarðar, kvikmyndahús, sjúkrastofnanir, fangelsi, dvalarheimili og sundlaugar, voru ekki fyrir bæði svarta og hvíta, svo fátt eitt sé nefnt. Og þessi aðskilnaðarstefna var meira að segja, í kirkjugörðum!

Það er ekki fyrr en árið 1964, í kjölfar linnulausarar baráttu svartra aðgerðasinna, sem ný mennréttindalög tóku gildi. Lögin áttu að tryggja svörtum sömu réttindi og hvítum, og sama ár hlaut Martin Luther King yngri friðarverðlaun Nóbels. En það er ekki þar með sagt að svartir hafi síðan þá setið við sama borð og hvítir í Bandaríkjunum.

„En jafnvel í norðurríkjunum þar sem þrælahald var löngu afnumið hefur þessi mismunun verið landlæg alla tíð síðan.“

epa08461808 LAPD Commander Cory Palka discusses with protesters in front of Los Angeles mayor Eric Garcetti's house as thousands of protesters took the street to demonstrate following the death of George Floyd, in Los Angeles, California, USA, 02 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, shows George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as one officer knelt on his neck. The unarmed black man soon became unresponsive, and was later pronounced dead. According to news reports on 29 May, Derek Chauvin, the police officer in the center of the incident has been taken into custody and charged with murder in the George Floyd killing.  EPA-EFE/ETIENNE LAURENT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Lögreglumaður ræðir við mótmælendur í Los Angeles í vikunni.

„Of mikil valdbeiting“

Frá því George Floyd var myrtur 25. maí hefur sannkölluð mótmælaalda riðið yfir Bandaríkin, og ekki aðeins Bandaríkin heldur heim allan. Á flestum stöðum eru þau friðsöm, en í Bandríkjunum voru þau langt í frá friðsöm, að minnsta kosti framan af. 12 stórar borgir lýstu yfir útgöngubanni að kvöldi laugardagsins 30. maí, og 2. júní höfðu ríkisstjórar tuttugu og fjögurra ríkja Bandaríkjanna, auk Washington D.C. notið aðstoðar bandaríska þjóðvarðliðsins. Að minnsta kosti ellefu þúsund mótmælendur hafa verið handteknir í Bandaríkjunum frá því mótmælin hófust.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er forstjóri Lýðræðis- og mannréttindaskrifstofu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, ÖSE. Eitt af hlutverkum ÖSE er að fylgjast með þróun mannréttinda og lýðræðis í aðildarríkjum sínum og reyna að koma í veg fyrir að átök brjótist út. Hún og hennar fólk hafa fylgst náið með þróuninni í Bandaríkjunum síðustu daga. 

„Ef maður horfir á þetta eins og þetta blasir við núna í fjölmiðlum, að þá er greinilega sýnist mér að valdbeitingin sé of mikil gagnvart mótmælendum. Það breytir ekki því að í hópi mótmælenda eru greinilega líka öfl sem beita valdi, en það má ekki yfirfæra það yfir á alla mótmælendur,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.

Það eru einmitt þessi skemmdarverk og þessar gripdeildir, sem fáein skemmd epli hafa staðið fyrir og stundað, sem gerir þessa stöðu snúna. Bæði fyrir friðsama mótmælendur, en líka fyrir ríkisvaldið. Ingibjörg segir að ÖSE eigi eftir að koma tilmælum áleiðis til Bandaríkjanna, en um leið sé mikilvægt að hafa í huga að ÖSE sé ekki lögregla. 

Réttur fólks til að mótmæla

„Núna erum við einmitt að skoða ástandið í Bandaríkjunum og sjá með hvaða hætti við getum bent þeim á hvernig betur megi standa að þessum málum. Því það er mjög mikilvægt að tryggja, ekki bara það að fólk geti komið saman, heldur ákveðinn rétt til að mótmæla. Það á að tryggja hann og það á að gefa fólki kost á því að mótmæla. Og það á að vera hlutverk löggæsluyfirvalda að gera það auðveldara og tryggja og vernda mótmælendur,“ segir Ingibjörg Sólrún. Rétturinn til að mótmæla, sem Ingibjörg nefnir hér, er einmitt einn af hornsteinum lýðræðissamfélaga. 

Það er náttúrúlega tryggt í alþjóðasáttmálanum um borgaraleg og pólitísk réttindi að fólk geti komið saman til að tjá skoðanir sínar, og þetta tengist auðvitað tjáningafrelsinu og að fólk geti komið því á framfæri,

segir Ingibjörg Sólrún og bætir því við að það sé mikilvægt að þó svo að einhverjir mótmælendur grípi til vopna, eða mótmæli ekki friðsamlega - megi það ekki hafa áhrif á og takmarka rétt annarra til að mótmæla.

Það þarf ekki að þýða það að það eigi við um mótmælendurna almennt, og það er mikilvægt að yfirfæra það ekki yfir á alla mótmælendur þótt einhver hópur grípi til ofbeldis og takmarka ekki rétt allra hinna til að koma saman og mótmæla. 

Átök spretta ekki upp úr engu

En sú mikla óöld sem gengur yfir Bandaríkin um þessar myundir er ekki úr lausu lofti gripin. Morðið á George Floyd er ekki einsdæmi, en mögulega kornið sem fyllti mælinn og endurspeglar stórt vandamál sem snýr að félagslegri og efnahagslegri mismunun í garð svarts fólks í Bandaríkjunum. 

„Það hvernig lögreglan hefur komið fram við fólk af afrískum uppruna, það er eiginlega kafli út af fyrir sig og þetta er eitt af því sem heyrir mjög greinilega í öllum viðtölum. Sérstaklega við karlmenn en konur reyndar einnig, af afrískum uppruna. Ég held að það sé varla til sá svarti maður í Bandaríkjunum sem hefur ekki orðið fyrir því að lögregla hafi stoppað hann af engu tilefni,“ segir Guðmundur Hálfdánarson. „Ef að yfirvald umgengst þig sem sekan fyrirfram, það er ekki góð tilfinning.“

Árið 2009 var Henry Gates, prófessor við Harvard háskóla, handtekinn af lögreglu þegar hann var að reyna að komast inn á eigið heimili. Gates er svartur og ályktuðu lögreglumenn sem svo að hann væri glæpamaður. Í samtali við Boston Globe lýsti Gates yfir hneykslan sinni á þessari niðurlægjandi upptöku, en um leið hafi handtaka hans varpað ljósi á það hve margir verði á hverjum degi fyrir ofsóknum og ofbeldi að hálfu dóms- og réttarkerfisins.

Og þetta var fyrir rúmum áratug síðan. 

„Staðreyndin er sú að svartir í Bandaríkjunum eru minna menntaðir en hvítir og þeirra efnahagslegu tækifæri eru minni og þeir búa gjarnan í verri hverfi og eru einangraðir í gettóum,“ segir Guðmundur. 

Fleiri svartir eru myrtir af lögreglunni 

En Bandaríkin eru flókið samfélag, og segir Guðmundur að um leið og þetta sé raunin þá séu fá samfélög á jarðríki sem séu jafn opin fyrir því að svartir fái sömu tækifæri og aðrir. En það er einfaldlega miklu erfiðara, vegna þessa djúpa samféalgs- og menningarlega klofnings sem nær allt aftur til þrælahaldsins. Það eru fleiri svartir sem sitja í fangelsum en hvítir í Bandaríkjunum, það eru fleiri svartir atvinnulausir, það voru fleiri svartir sem létust vegna kórónuveriunnar, og svo framvegis. 

„Þá er það alltaf hlutur svartra að vera allt í helmingi hærri en þeir ættu að vera samkvæmt hlutfalli þeirra af fólksfjöldanum í heild.“

Og það eru líka fleiri svartir sem eru drepnir af lögreglunni. Nýleg tölfræði segir okkur að svartir Bandaríkjamenn eru nær þrisvar sinnum líklegri en hvítir til þess að verða drepnir af lögreglunni. Á síðasta ári voru 24% þeirra sem voru drepnir af lögreglunni í Bandaríkjunum svartir, en svartir eru einungis 13% Bandaríkjamanna. Þá eru svartir einnig líklegri til að vera óvopnaðir þegar þeir hljóta þessi ömurlegu örlög. 

Fyrrnefnd réttindabarátta svartra á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, í forsetatíð Lyndon B. Johnsons, skilaði svörtu fólki vissulega auknum réttindum. Opinberlega allavega, en svo virðist sem rætur aðskilnaðar og misréttis risti dýpra. 

Drepinn þegar hann var úti að skokka

„Það er eins og allar þær breytingar hafi ekki breytt menningunni. Mennigin er ennþá þannig að þegar lögreglumaður, og það á jafnvel við um svarta lögreglumenn líka, að um leið og þeir sjá svartan karlmann þá er eins og það sé stimplað inn í þá að þarna sé glæpamaður á ferð.“

Hér að ofan má sjá umfjöllun Good Morning America um morðið á Ahmaud Arbery, 25 ára manni sem fór út að skokka í bænum Brunswick í Georgíu-ríki þann 23 febrúar síðastliðinn. Eins og venja er þegar fólk fer út að skokka, þá var Arbery óvopnaður. Tveir menn, Travis McMichael og faðir hans Gregory, sem er fyrrverandi lögreglumaður, sátu í pallbíl sáu hvar Arbery kom skokkandi í áttina að þeim. Tóku þeir upp byssu, skutu Arbery og myrtu hann. Arbery var, það þarf kannski ekki að taka fram, svartur. 

Allt þetta mál vekur vitaskuld óhug, en hvað segja þessi viðbrögð feðganna okkur? Þarna er svartur maður að hlaupa, hann hlýtur að vera glæpamaður, hugsa þeir. 

„Annars vegar það, og hinsvegar það að þessi fyrrverandi lögreglumaður hafi talið sig hafa þann rétt á að skjóta hann. Það væri einfaldlega réttur hvíts manns að taka mann af lífi án dóms og laga sem hann grunaði um eitthvað, sem í þessu tilviki var algjör fjarstæða,“ segir Guðmundur. 

Mikilvægt að vera stöðugt á varðbergi

Þeir feðgar hafa nú verið ákærðir fyrir morð af yfirlögðu ráði, en því miður eru morðin á Arbery og George Floyd ekki einangruð dæmi, eins og fram hefur komið. Misréttið heldur áfram, sama hvað hver segir og sama hvað öllum samfélagsbyltingum líður. 

„Misrétti gagnvart svörtum, eða rasismi, er mjög inngróinn í Bandaríkjunum,“ segir Ingibjörg Sólrún. Lengi býr að fyrstu gerð segir máltækið. 

„Maður getur kannski sagt að hópar sem að frá aldaöðli hafa verið misrétti beittir, þar eru ræturnar mjög djúpar og gamlar. Það geta verið svartir, það geta verið gyðingar, það geta verið konur. Þá er mjög fljótt að koma upp á yfirborðið ákveðnir fordómar og ákveðið misrétti sem er inngróið í samfélagsgerðinni og hefur ekki tekist að uppræta. Þetta er alltaf að koma upp aftur og aftur. Menn verða að vera stöðugt á varðbergi gagnavart þessu og minna sig á að þarna eru gamlar rætur sem þarf að reyna að rífa upp með einhverjum hætti,“ segir Ingibjörg Sólrún.

epa08464811 The painter Fouad Hachmi poses in front of a graffito produced with his crew 'CNN199' paying homage to George Floyd and all the victims of police blunders in Grimbergen, Belgium, 04 June 2020. The artist names of the crew members are EXOM, HMI, AZE, MESK, DOUÉ.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Listamaðurinn Fouad Hachmi fyrir framan graffítí verk sitt af George Floyd í bænum Grimbergen í Belgíu.

Hvernig bregðast stjórnvöld við?

Og þá liggur kannski beinast við að spyrja, er verið að reyna að rífa upp þessar gömlu rætur? Hafa bandarísk stjórnvöld til að mynda gert allt sem í þeirra valdi stendur til að breyta þessari áratuga og árhundruða langa misrétti, þeirri kúgun sem svart fólk er beitt? Og hvernig hafa stjórnvöld hafa brugðist við þeirri stöðu sem nú er komin upp í landinu, hvernig þau hafa brugðist við réttlátri reiði almennings?

Þann 29. maí vottaði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fjölskyldu George Floyd samúð sína og segir að þarna hafi hræðilegur atburður átt sér stað. Forsetinn bætti því við að það sé mikilvægt að mótmæli fari fram með friðsamlegum hætti, og þær óeirðir sem hafi átt sér stað í Minneapolis megi ekki breiðast út og valda frekara stjórnleysi.

Gott og vel, maður skilur svosem þessa afstöðu frá þjóðarleiðtoga, en fyrstu viðbrögð forsetans féllu hreint ekki í kramið á landsmönnum. Í rauninni ekki heldur hjá stjórnendum samfélagsmiðla.

Trump og Twitter-stríðið

Birta Björnsdóttir, annar ritstjóri Heimskviða, veit meira um þetta mál. Hvað gerðist nákvæmlega?

„Á miðvikudeginum eftir morðið á George Floyd skrifar Trump á Twitter að bandaríska alríkislögreglan og dómsmálaráðuneytið hafi hafið rannsókn á sorglegum dauða" George Floyd, eins og hann orðaði það,“ segir Birta. Það orðalag hefur væntanlega ekki farið vel í Twitter samfélagið?

„Heldur betur ekki, og í kjölfarið magnast náttúrulega mótmælin og óeirðirnar. Á föstudaginn síðasta deilir hann svo myndskeiði Fox fréttastofunnar frá gripdeildum og öðrum skemmdarverkum í Minneapolis og segir þessi fleygu orð: “When the looting starts, the shooting starts” - sem gæti útleggst einhvern veginn svona: Þegar gripdeildirnar byrja þá hefst skothríðin. Þessi yfirlýsing lagðist ekki síst illa í fólk því hún á sér sögulega skírskotun. Orðin eru eignuð Walter Headley, sem var lögregluforingu í Miami, og þá var hann að vara við harkalegum viðbrögðum við skemmdarverkum og glæpum,“ segir Birta.

„Æðstu prestar Twitter ákváðu þá að breyta stillingunum á þessu tísti forsetans þannig að ekki væri hægt að "læka" við tístið og merktu það sérstaklega. Við þessi tíst forsetans stendur að það brjóti gegn reglum samfélagsmiðilsins um upphafningu á ofbeldi, eða "gloryfing violence" eins og það er kallað. Tístinu sé hinsvegar ekki eytt vegna þess að það í sé í almannaþágu að hafa það aðgengilegt,“ segir Birta.

„Í kjölfarið hefur Twitter fengið ágætis gagnrýni á sig. Hvers vegna er miðillinn ekki löngu búinn að gera þetta spyrja margir sig? Og er þetta rétt skref að stíga? Það er allavega áhugavert, að hér stigi stjórnendur stærstu samfélagsmiðla í heimi inn í umræðuna og segi hingað og ekki lengra.“

Þannig það er ekki bara Twitter sem hefur gripið til þess ráðs að ritskoða forsetann?

„Nei, Snapchat hefur til að mynda að ákveðið að hætta að vekja athygli á Snapchat-reikningi forsetans, þótt hann sé mjög vinsæll. En Facebook hefur hinsvegar ekki gert neitt og hefur Mark Zuckerberg stofnandi Facebook varið þá ákvörðun sína að leyfa Trump beinlínis að hóta mótmælendum ofbeldi. Hann segir í raun að það sé stefna Facebook að heimila þjóðarleiðtogum að láta vita ef ríkið ætli að beita valdbeitingu,“ segir Birta.

epaselect epa08461747 People, who gathered in protest of the death of George Floyd, peacefully march to the White House in Washington, DC, USA, 02 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, shows George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as one officer knelt on his neck. The unarmed black man soon became unresponsive, and was later pronounced dead. According to news reports on 29 May, Derek Chauvin, the police officer in the center of the incident has been taken into custody and charged with murder in the George Floyd killing.  EPA-EFE/SHAWN THEW
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ungur mótmælandi í Washington D.C.

Tvískipt Bandaríki

Við segjum skilið við samfélagsmiðlana um sinn en eftir situr sú staðreynd að Donald Trump hefur ítrekað haldið áfram að segja að hörðu verði mætt með hörðu. Sem fyrr segir er þjóðarvarðarliðið komið til margra stórra borga í Bandaríkjunum og þótt mótmælin séu með friðsamara móti nú en í upphafi þessarar viku og lok þeirrar síðustu, varpar þessi staða skýru ljósi á þá djúpstæðu gjá sem virðist vera í bandarísku samfélagi, gjá milli ólíkra þjóðfélagshópa. Gjá sem virðist stækka og stækka. 

Á síðustu árum höfum við orðið vör við það í Evrópu að stjórnmálaflokkar og stjórnmálaöfl sem aðhyllast róttæka hugmyndafræði, eins og þjóðernispopúlisma, fá sífellt meiri stuðning. Heilu þjóðirnar virðast vera að klofna í sundur hugmyndafræðilega, og þessi klofningur eða pólarisering hefur líka teygt anga sína til Bandaríkjanna, sem hafa ekki farið varhluta af þessari þróun síðustu ár.

Óvinir innan ríkisins

„Það sem maður sér að er að gerast og er að gerast með áberandi hætti í Bandaríkjunum, það er þessi aukna pólarisering. Og líka hitt sem er mjög áberand í bandarískum stjórnmálum og víða í Evrópu líka, að það er þetta að þeir sem eru á öndverðum meiði við þig, þeir sem eru ekki sömu skoðunar og þú, eru andstæðingar þínir. Þeir eru ekki lengur bara andstæðingar sem þú tekst á við með rökum, heldur eru þeir óvinir þínir. Það eru þessar óvinaímyndir sem er verið að teikna upp mjög víða. Þessi óvinur kemur bæði að utan, en það er líka óvinur sem er búinn að koma sér fyrir innan ríkisins,“ segir Ingibjörg Sólrún, og undir það tekur Guðmundur Hálfdánarson.

„Bandaríkin eru á mjög hættulegri braut. Lýðræðið er einhvernveginn mjög brothætt í Bandaríkjunum um þessar mundir. Það er þessi pólarisering sem er þar ein megin hættan. Og það á við um báða vængi þessara deilna, að fólk er hætt að geta talað saman. Það er farið að skiptast upp í þannig fylkingar og flokka að það getur aldrei náð neinu samkomulagi um eitt eða neitt,“ segir Gu[mundur. 

Ingibjörg Sólrún nefnir einnig að aukin misskipting fólks eykur á þennan klofning. Auður safnast á færri og færri hendur, og fleiri finna fyrir því að afkoma þess sé í hættu. Og þá er algengara en ella að við skiptum okkur upp í hópa, við á móti hinum. Og frá sjónarhóli lýðræðis og mannréttinda, er slík þróun áhyggjuefni. 

„Hún er alltaf áhyggjuefni. Sérstaklega þegar /a[ verður svona eitrað pólitískt andrúmsloft eins og maður sér mjög víða, þá eru dregnar upp svo sterkar óvinamyndir og þá er svo auðvelt að leita að einhverjum hópum sem eru sökudólgarnir. Það geta verið múslimar, það geta verið innflytjendur, það geta verið gyðingar, það getur verið róma-fólk, það getur verið erlent vinnuafl, eða hvað sem er. Þessir hópir eru svo varnarlausir og eru í svo erfiðri stöðu, og það er alltaf hætturlegt þegar þetta gerist.“

Orðræða Trumps

Ég velti því fyrir mér hvort forsetinn sjálfur sé nokkuð saklaus af því að stuðla að slíkum flokkadráttum. 

Þarna fyrir ofan m'a sj'a Trump tala um, athugið ekki dæmda glæpamenn heldur Mexíkóa, í kosningabaráttu sinni 2016. 

„Það sem hefur gerst núna í Bandaríkjunum á síðustu árum í tíð Donalds Trump, er kannski ekki síst það að hann hefur allt í einu normalíserað orðræðu sem var bara hreint ekki talin normal,“ segir Guðmundur. Þótt Trump telji sjálfan sig alls engan rasista, er ljóst að hann hefur ekki afdráttarlaust fordæmt samtök og félagsskap rasista í Bandaríkjunum.

Þegar hópar hvítra þjóðernissinna komu saman í Charlottesville í Virginíuríki fyrir tæpum þremur árum, og hrópuðu niðrandi slagorð í garð gyðinga og svartra, á samkomu þar sem einn nýnasistinn skaut saklausan borgara til bana - sagði Trump að það þetta, jah, væri báðum að kenna. Guðmundur segir að með því að fordæma ekki afdráttarlaust óhæfuverk nýnasista, taki forsetinn um leið undir þeirra málflutning. 

„Þetta var eitthvað sem var óhugsandi fyrir fimm árum síðan að manni fannst. Allt í einu er maður sem situr á forsetastóli farinn að taka undir og raunverulega segja að svona orðræða sé í lagi. Að hún sé ekkert svo slæm. Þetta er eithvað sem forseti eins og George Bush yngri, hefði aldrei rekið. Hún var bara einfaldlega ekki viðurkennd. Hún var auðvitað til, þessi orðræða, en hún átti engan hljómgrunn í þessum efstu lögum. Forsetar gátu bara ekki talað svona, en Trump talar svona.“

epa08462812 Crowds gather to demonstrate at a Justice for Black Lives protest in London, Britain, 03 June 2020.  Protesters gathered in front of the embassy to express their feelings in regard to the death of 46 year old George Floyd while in police custody. A bystander's video posted online on 25 May appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck, in Minnesota, USA. The unarmed black man later died in police custody.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Frá mótmælum í Lundúnum í vikunni.

Við á móti hinum

Hvað gerist næst og hvað er til bragðs að taka? Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Bandarísk þjóð upplifir nú undarlega tíma. Nærri tvær milljónir kórónuveriusmita hafa greinst í landinu og yfir hundrað þúsund látist í faraldrinum. Enginn þjóð kemst þar í hálfkvisti við Bandaríkin. Kosið er til forseta í haust, og eins og staðan er núna gæti það vel gerst að Donald Trump yrði endurkjörinn.

Þér kann að þykja það ótrúlegt, kæri hlustandi, ekki aðeins vegna viðbragða hans við útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu og rætt hefur verið um áður í Heimskviðum, eða viðbragða hans við morðinu á George Floyd, nú eða öllu hinu sem hann hefur áorkað eftir nærri fjögurra ára setu á forsetastóli -  en það er nákvæmlega til marks um þennan djúpstæða klofning í bandarísku samfélagið sem okkur hefur orðið tíðrætt um í þessum pistli. 

Horft á heiminn í gegnum kynþáttagleraugu

Það er allavega ljóst að það er borin von að ólíkir þjóðfélagshópar í Bandaríkjunum færist nær hver öðrum, ef þeim er sífellt stillt upp gegn hver öðrum.

„Stóra vandamálið er þessi stóri hópur fólks sem einhvern veginn horfir á heiminn í gegnum þessi kynþáttagleraugu og það er svo erfitt að taka þessu gleraugu af,“ segir Guðmundur Hálfdánarson. En þótt kynþáttagleraugun sem Guðmundur nefnir séu tekin af, er enn langur vegur fram undan. Ætli það sé ekki fyrst þá sem vinnan geti hafist?

„Það er ekki nóg heldur að mennta fólk, mennta konur, mennta svarta, mennta innflytjendur, mennta róma-fólk, ef að breytist ekkert á hinum endanum hjá þeim sem ætla að taka á móti þessu fólki. Þar er vandinn, þar liggja fordómarnir og það þarf að reyna að vinna með hugarfar allra þeirra sem einhverju ráða í samfélaginu og þeir þurfa að breytast og þeir þurfa að setja gott fordæmi og þeir þurfa aðs enda skýr skilaboð og þeir þurfa að vera fyrirmyndir. Það er ekki hægt að varpa byrðinni á þá sem eiga að aðlagast hinum,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að lokum.

Guðmundur Björn Þorbjörnsson
dagskrárgerðarmaður