Hafrannsóknir fjárfesting ekki eyðsla

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Sífelld hagræðingarkrafa í fjárveitingum ríkisins er áhyggjuefni fyrir Hafrannsóknastofnun og ekki í samræmi við  vilja núverandi ríkisstjórnar að efla haf- og umhverfisrannsóknir.  

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunnar, segir í ársskýrslu stofnunnarinnar sem kynnt var í dag, að líta verði á hafrannsóknir sem fjárfestingu en ekki eyðslu. 

Hafrannsóknastofnun sinnir grunnvöktun á helstu umhverfisþáttum í hafinu í kringum landið ásamt vöktun á helstu nytjastofnum sjávar og í ám og vötnum og segir Sigurður nær alla rekstrarfjármuni stofnunarinnar fara í þá vöktun.  

„Nýting sjávarauðlinda byggir á sjálfbærri nýtingu okkar nytjastofna og mælingar á afkastagetu þeirra er nauðsynleg fjárfesting. Ef slakað er á þarna, skapar það óvissu í mælingum sem leiðir til þess að stofnunin getum ekki ráðlagt jafn mikinn afla. Varúðarreglan mælir svo fyrir.“  Það, segir Sigurður, þýðir beint tap fyrir þjóðfélagið.  

Hagræðingarkrafa upp á 2 % á ári sé umtalsverð og í tilfelli Hafrannsóknastofnunar feli  það í sér 90 milljón króna lækkun á fjárveitingu á ári. Slíkur sparnaður taki í, sérstaklega ef áfram er haldið ár eftir ár.  

Hagræðingarkrafan sé aukinheldur í beinni andstöðu við auknar áherslur í hafrannsóknum. Miklar umhverfisbreytingar kalli á auknar rannsóknir og kostnað. Þegar langstærstur hluti af rekstrarfé stofnunarinnar sé fastur kostnaður sem fari í grunnvöktun á umhverfi og fiskistofunum sé ekki mikið rými til hagræðinga.   

Heppilegt væri því að Hafrannsóknastofnun þyrfti ekki að sæta hagræðingarkröfu. 

 

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi