Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Frakkar felldu foringja Al Kaída í Norður-Afríku

06.06.2020 - 01:44
Mynd með færslu
Abdelmalek Droukdel. Mynd: AP
Foringi Al Kaída í Norður-Afríku var drepinn af frönskum hermönnum í Malí á fimmtudag. Nánir samstarfsmenn hans voru einnig vegnir, að sögn Florence Parly, varnarmálaráðherra Frakklands. 

Foringinn hét Abdelmalek Droukdel, og var meðal stjórnenda í Al Kaída á heimsvísu. Hann stjórnaði vígamönnum hreyfingarinnar í gervallri Norður-Afríku og Sahara, hefur AFP fréttastofan eftir Parly. Frakkar kveðast einnig vera með leiðtoga íslamska ríkisins á stór-Saharasvæðinu í haldi.

Al Kaída í Norður-Afríku spratt upp af hópi alsískra íslamista sem á rætur sínar að rekja til tíunda áratugar síðustu aldar. Árið 2007 gekkst hópurinn við hugmyndafræði Al Kaída. Vígahópurinn er með bækistöðvar í norðanverðu Malí. Þaðan gera vígamenn árásir og skipuleggja mannrán á vestrænu fólki.

Alls eru yfir fimm þúsund franskir hermenn á svonefndu Sahel-svæði í Afríku, þar sem þeir berjast gegn vígahreyfingum íslamista. Malí hefur átt í vök að verjast gegn árásum íslamista allt frá árinu 2012. Þúsundir hermanna og almennra borgara hafa fallið í árásunum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV