Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Flugskýlið verður ekki rifið

Mynd með færslu
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar. Mynd:
Ekki kemur til þess að rífa þurfi viðhaldsstöð flugfélagsins Ernis vegna vegalagningar og Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður samgöngu- og skipulagsráðs, segir það miður að umræðan hafi farið í þennan farveg.

Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 á fimmtudag að borgin hygðist leggja veg þar sem nú er viðhaldsstöð flugfélagsins Ernis á Keflavíkurflugvelli. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sagði í færslu á Facebook í gær að ekki komi annað til greina en að Reykjavíkurborg  standi við samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð.

Sigurborg Ósk segir borgina ekki hafa hug á öðru en að standa við það samkomulag. „Það er samkomulag um að raska ekki rekstri flugvallarins á meðan hann er,“ segir hún.

 „Fyrstu drög gerðu ráð fyrir vegi sem lægi þarna. það var fundað með Erni og þá kom í ljós að það myndi ekki ganga,“ bætir hún við. Húsnæðið  sem viðhaldsstöðin er í sé friðað og því verði ekki haggað.

Fundurinn var haldinn um mánaðamótin apríl maí og strax í kjölfarið var farið að kanna aðra kosti fyrir vegalagningu. „Verkfræðistofa er nú búin að leggja til nokkra kosti sem verið er að skoða,“ segir Sigurborg Ósk. „Það er mikilvægt að finna góða lausn á þessu, því þarna er að fara af stað mikil og vönduð húsnæðisuppbygging.“

Framkvæmdirnar verða í tveimur áföngum og þarf að tryggja samgöngur um svæðið bæði á framkvæmdatíma og fyrir almenningssamgöngur eftir að þeim er lokið. Sá hluti er snýr að almenningssamgöngum liggur hins vegar nær sjónum og hefst ekki strax.

„Við þurfum hins vegar fljótlega að finna lausn á efnisflutningum,“ segir hún.

Gert er ráð fyrir að deiliskipulag í byrjun júlí og að hægt verði að hefja framkvæmdir strax á næsta ári.