Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verkfall hjúkrunarfræðinga: „Mjög margt mun bíða“ á LSH

Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
2600 hjúkrunarfræðingar fara að óbreyttu í verkfall eftir rúmar tvær vikur eftir 15 mánaða samningsleysi. Mjög alvarleg tíðindi, segir forstjóri Landspítalans. Margt muni bíða og þjónusta fara úr skorðum. Vonbrigði, segir formaður samninganefndar ríkisins.

Tekur til 2600 hjúkrunarfræðinga

Verkfallið var samþykkt með 85 prósentum greiddra atkvæða. 13% sögðu nei og 1% skilaði auðu. Þátttaka í atkvæðagreiðslunni var 82%. Stuðningur við verkfall var því afgerandi. „Þetta er það mesta sem við höfum séð, um 10% meira en við sáum fyrir fimm árum,“ segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Ef ekki næst að semja fyrir 22. júní hefst ótímabundið verkfall klukkan átta um morguninn þann dag, á mánudaginn eftir rúmar tvær vikur. „Þetta tekur til tvo þriðju af starfandi hjúkrunarfræðingum eða 2600 hjúkrunarfræðinga og þeir starfa um allt land,“ segir Guðbjörg.

Mikil vonbrigði og alvarleg tíðindi

„Þetta kemur ekki óvart miðað við samtöl okkar síðustu daga en við urðum fyrir miklum vonbrigðum,“ segir Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sverrir Jónsson, formaður samninganefndar ríkisins.

Bráðveikum áfram sinnt

„Það eru mjög alvarleg tíðindi að búið sé að boða til verkfalls,“ segir Páll Matthíasson forstjóri Landspítala. 

Undanþágulistar gera ráð fyrir að bráða- og neyðarþjónustu sé sinnt. Páll segir að það eigi eftir að meta hvort loka þurfi deildum komi til verkfalls. Valkvæðar aðgerðir liggi þó að mestu niðri yfir sumartímann. „Bráðveiku fólki verður auðvitað sinnt með undanþágum ef þess krefur en mjög margt mun bíða og þetta mun trufla okkar þjónustu. Allt sem getur beðið mun bíða,“ segir Páll.

Vilja hærri grunnlaun

Samningaviðræður hafa staðið í rúman mánuð eftir að hjúkrunarfræðingar felldu samning í lok apríl. Í könnun meðal félagsmanna sagði meirihluti svarenda grunn- eða dagvinnulaun helstu ástæðuna fyrir því að samningurinn var felldur.

Fylgið þið ekki lífskjarasamningnum? „Ég get ekki gefið það upp hvað við erum að ræða innan launaliðarins, nema að þetta snýst aðallega um launaliðinn. Hjúkrunarfræðingar eru mjög skýrir á því, við þurfum að fá hærri grunnlaun,“ segir Guðbjörg.

Launakröfur utan þess ramma sem aðrir hafa samið um

„Nú erum við að ræða launin, þar höfum við teygt okkur mjög til eða innan þess ramma sem samfélagið hefur náð sátt um. Við munum halda áfram að tala saman næstu daga og reyna að finna flöt á þessu en við höfum teygt okkur eins vel og við getum,“ segir Sverrir.

Eru hjúkrunarfræðingar að biðja um meira en lífskjarasamningurinn kveður á um? „Þetta er utan þess ramma sem við höfum samið um við aðrar stéttir,“ segir hann.

Ríkissáttasemjari hefur boðað til fundar í deilunni á mánudag. Kjarasamningur hjúkrunarfræðinga hefur verið laus í tæplega fimmtán mánuði. „Hjúkrunarfræðingar hafa haldið mjög vel á sínum réttindamálum á undanförnum árum og kjör þeirra í samanburði við aðra hafa þróast vel og það hallar síst á hjúkrunarfræðinga,“ segir Sverrir.

Afdrífaríkt ef samningurinn fer aftur í gerðardóm

Síðast fór samningurinn fyrir gerðardóm. Hvað ef það gerist aftur núna? „ Það er mjög erfitt að vera í vinnu hjá aðila sem í rauninni er ekki tilbúinn að semja um laun svo árum skiptir. Þetta getur haft mjög afdrífaríkar afleiðingar á mönnun stéttarinnar og það að fólk vilji starfa innan íslensks heilbrigðiskerfis yfirhöfuð,“ segir Guðbjörg jafnframt.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.