Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tölvuárásin á RB líklega gerð frá útlöndum

05.06.2020 - 12:32
Tölva í myrkvuðu herbergi
Uppfinning Tomlinsons þýðir að hægt er að hafa samband við hvern sem er hvenær sem er. Mynd: Stocksnap.io
Flest bendir til þess að tölvuárásin á kerfi Reiknistofu bankanna hafi verið gerð frá útlöndum og líkur eru á því að uppruninn finnist. Tölvuþrjótarnir komust að ystra varnarmúr, að sögn sérfræðings.

Tilraun til innbrots í tölvukerfi Reiknistofu bankanna var gerð seint í fyrrakvöld og viðbraðgsáætlun var virkjuð í gærmorgun. Kerfið lá niðri um stund upp úr hádegi og truflanir urðu á starfsemi netbanka og debetkorta í um klukkustund.

Ragnhildur Geirsdóttir forstjóri Reknistofu bankanna sagði í samtali við fréttastofu í gær að ekkert benti til þess að árásin hafi beinst gegn fyrirtækinu sérstaklega og að upplýsingar hafi ekki verið í hættu. Valdimar Óskarsson er framkvmædastjóri netöryggisfyrirtækisins Syndis sem  kemur að rannsókn málsins.

„Rannsóknin gengur bara ágætlega, miðar ágætlega. Við erum komin með mikið af gögnum frá RB sem við erum að skoða og greina.“
Varð eitthvað tjón í þessari árás?
„Það er ekki talið.“

Valdimar segir Reiknistofu bankanna taka málið alvarlega og vilja komast til botns í málinu og því verði gengið úr skugga um að ekkert tjón hafi orðið. Þegar Valdimar er spurður að því hvort árásin hafi mögulega verið gerð frá Rússlandi, segir hann:

„Það er ekkert sem hægt er að fullyrða og í þessu tilfelli alls ekki hægt að staðfesta það. Oft og tíðum þegar þessir óprúttnu aðilar eru að gera árásir þá villa þeir nú ansi mikið á sér heimildir og þeir geta þess vegna verið í næsta húsi og látist koma frá Rússlandi, þannig að það er ómögulegt um það að segja.“
Er vitað hvort hún er innlend eða erlend?
„Það eru miklar líkur á að hún sé erlend, það er allt sem bendir á það.“
Hverjar eru líkurnar á að finna upprunann í svona árás?
„Þær eru náttúrlega alltaf til staðar, en fókusinn liggur í því að greina afleiðingar.“

Valdimar segir ekkert benda til þess að tölvuþrjótarnir hafi ætlað að ráðast á Reiknistofu bankanna sérstaklega eða komist í innri kerfi, heldur einungis inn á fyrsta öryggismúr.