Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þá var krísa og þá réðu karlar konur“

©Kristinn Ingvarsson
 Mynd: Háskóli Íslands
Ráðning kvenna í stöðu faglegs sveitar- eða bæjarstjóra er nátengd kynjaskiptingu viðkomandi sveitarstjórnar og þá sérstaklega því hvaða kyn eru í valdastöðum innan sveitarstjórnarinnar. Þetta eru niðurstöður rannsókna Evu Marínar Hlynsdóttur, dósents í opinberri stjórnsýslu, við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurstöðurnar eru birtar í nýrri bók Evu Marínar sem heitir Gender in Organizations: The Icelandic Female Council Manager og byggist á rannsóknum hennar á stjórnkerfi á sveitarstjórnarstiginu. Forlagið Peter Lang gefur bókina út.

Eva Marín skoðaði sérstaklega ráðningar kvenna í stöðu faglegs bæjar- eða sveitarstjóra eftir fernar kosningar á árunum 2006-2018. Hún lagði áherslu á að skoða tengsl starfsauglýsinga og hæfniviðmiða annars vegar og kynjaskiptingu í sveitarstjórn hins vegar við það hvort kona eða karl er ráðinn. Ráðningar kjörinna fulltrúa voru ekki rannsakaðar.

Aðrir þættir eins og erfiðleikar í rekstri sveitarfélaga, líkt og fylgdu í kjölfar efnahagskreppunnar, hafi einnig áhrif á það hvort kona eða karl er ráðinn faglega í stöðu sveitar- eða bæjarstjóra.

Niðurstöður benda til þess að í krísum ráði karlar konur

„Árið 2010 verður algjör sprenging. Þá var hæsta hlutfall kvenna sem hafði nokkurn tíma verið í framkvæmdastjórastöðu sveitarstjórnar,“ segir Eva Marín í samtali við fréttastofu RÚV. Hlutfall kvenna í stjórnunarstöðum sveitarstjórna fór þá úr um 15 prósentum upp í 30 prósent.

„Þá var krísa og þá réðu karlar konur. Tvö þúsund og átján er ekki krísa og þá ráða karlar ekki konur. Þá ráða hins vegar konur í stjórnunarstöðum innan stjórnsýslunnar konur.“

Eva Marín bendir á að árið 2014 hafi einungis verið þrjár faglegar nýráðningar kvenna í framkvæmdastjórastöðu. „Það var mikið auglýst 2014 en fáar konur ráðnar. Tvö þúsund og átján eru aftur konur ráðnar. Þetta eru bylgjur og það er mjög áhugavert, því það bendir til þess að það sé eitthvað annað en bara hæfniviðmið sem hafa áhrif á það að konur séu ráðnar í stöðu faglegs framkvæmdastjóra.“ 

Eva Marín segir að í upphafi rannsókna hafi verið mjög óljóst hvað þyrfti til að verða framkvæmdastjóri en það sé alltaf að verða fastmótaðra hvaða skilyrði séu auglýst á sveitarstjórnarstiginu.

Nýráðningum kvenna í framkvæmdastjórastöður fjölgaði mikið á árunum 2006-2018 og er hlutfall kvenna núna um 47 prósent.