Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sprenging í einkaneyslu á blómum

05.06.2020 - 14:07
Mynd: hallaharðar / hallaharðar
Axel Sæland blómabóndi segir blóm hafa breyst í nauðsynjavöru í Covid. Það sé ánægjuleg breyta í annars undarlegu árferði. Hann er ekki jafn sáttur við nýja búvörusamninga.

„Þetta segir okkur að fólk á pening milli handanna og leyfir sér. Þetta er auðvitað lúxusvara, en í Covid varð þetta nauðsynjavara að einhverju leiti,“ segir Axel Sæland, blómabóndi og einn eigenda garðyrkjustöðvarinnar Espiflatar. 

Axel segir blómaneyslu landans hafa aukist jafnt og þétt síðastliðin ár og þar hafi hversdagsvæðing blóma mest áhrif. Blómvendir hafi fengið sinn sess í íslenskum stórmörkuðum þar sem neytandinn eigi  auðvelt með að grípa einn vönd með innkaupunum, sér til yndisauka og einskis annars. 

„Í venjulegu árferði þá værum við búin að vera að sinna fermingum og útskriftum en Covid breytti því náttúrulega aðeins. Við urðum smá smeyk í mars þegar þetta byrjaði og við vissum ekkert hvað væri framundan. En það sem gerðist og það sem kom okkur mjög á óvart var það að einkaneyslan fór upp úr öllu valdi. Fólk vantaði eitthvað, hvort sem það var til að gefa eða bara fyrir sig sjálf, og þetta var alveg ótrúlega skemmtileg breyta sem við upplifðum.“

Axel bendir á að á bak við hversdagsvæðingu blómanna liggi mikil vinna. „Við höfum náð ákveðnum markmiðum sem við settum okkur, að koma blómum meira inn í stórmarkaði þannig að þau eru alltaf fyrir framan kúnnann. Þarna voru mikil tækifæri sem við höfum náð að grípa en þetta er markaður sem við höfum verið að byggja upp á síðastliðnum tuttugu árum með stórmörkuðum,“ segir blómabóndinn, ánægður með þá uppskeru. Hann er ekki jafn sáttur þegar talið berst að stærstu breytunni í starfseminni, raforkunni.

„Það er nýbúið að skrifa undir búvörusamning við ríkið þar sem við fáum töluverða fjármuni inn til niðurgreiðslu á dreifingu á raforku. En það sem okkur finnst sárt, er að það er talað um niðurgreiðslu til bænda, en fyrir okkur er þetta bara sanngirnismál, að við séum ekki að borga sömu krónutölu fyrir flutning og heimili út í bæ. Við eigum ekki að þurfa ríkisstuðning því taxtinn til okkar á bara að vera mikið lægri.“ 

Rætt var við Axel Sæland í Samfélaginu á Rás1 og hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

hallah's picture
Halla Harðardóttir