Ósáttur við borgina: „Þannig hagar sér enginn“

05.06.2020 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir að ekki komi annað til greina en að Reykjavíkurborg standi við samkomulag um skipulag og uppbyggingu á landi ríkisins við Skerjafjörð. Hann segir fráleitt að leggja veg gegnum friðað hús og að engin sómakær sveitarfélög taki eignir bótalaust af íbúum sínum.

Þetta segir Sigurður Ingi á Facebook-síðu sinni vegna fréttar Stöðvar 2 í gærkvöld um að borgin hyggist leggja veg þar sem nú er viðhaldsstöð flugfélagsins Ernis á Reykjavíkurflugvelli. Í fréttinni sagði að borgin hygðist láta rífa húsið án þess að flugfélagið fengi fyrir það bætur. Borgin hyggur á uppbyggingu nýs íbúðahverfis í nágrenninu.

Sigurður Ingi er ósáttur við borgina vegna þessa. „Fyrirhugaðar vegaframkvæmdir sem voru í fréttum í gærkvöldi eru innan flugvallargirðingar og verða aldrei án samþykkis Isavia,“ skrifar Sigurður Ingi. „Áform um að leggja veg í gegnum friðað hús eru fráleit og engin sómakær sveitarfélög taka heldur eignir bótalaust af íbúum sínum. Allra síst aðilum sem hafa þjónað sjúkraflugi og líffæraflutningum fyrir landsmenn í áratugi. Þannig hagar sér enginn.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi