Jóga við Sólfarið og afró í Hljómskálagarðinum í sumar

Mynd: RÚV / RÚV

Jóga við Sólfarið og afró í Hljómskálagarðinum í sumar

05.06.2020 - 15:20
Kramhúsið mun í sumar standa fyrir danstímum víðs vegar um Reykjavík. Fyrsti tíminn fór fram á Arnarhóli í hádeginu í dag þar sem gestir og gangandi dönsuðu kampakátir við afríska tónlist.

Þórdís Nadia Semichat og Margrét Erla Maack sáu um tíma dagsins í dag sem snerist allur um það að losa mjaðmirnar. Útitímarnir í sumar verða fjölbreyttir, það verður jóga við Sólfarið, magadans við safn Einars Jónssonar og afró í Hljómskálgarðinum, svo eitthvað sé nefnt, en tímarnir verða tvisvar í viku. 

Margrét Erla segir að ákveðið hafi verið að bjóða upp á útítímana af því að fólk sé æst að hreyfa sig, það megi loksins safnast saman úti og þetta sumar þurfi þar að auki að verða besta sumarið hingað til í Reykjavík. Þórdís Nadia bætir því við að danskunnátta sé alls ekki nauðsynleg til þess að koma og dansa. 

"Ef allir væru góðir í að dansa þá værum við atvinnulausar. Þetta snýst bara um að hafa gaman, koma út, fá hreyfingu og sól í kroppinn. Það er ekkert jafn ömurlegt og að vinna á skrifstofu í heilt sumar þegar það er gott veður og maður er fastur inni," segir hún. 

Tímarnir fá þó að ráðast að einhverju leyti af veðrinu þó svo þær útiloki það ekki að dansa á einhverjum tímapunkti úti í rigningunni. Það verði hins vegar svolítil  „popp-up“ stemming í kringum þetta og það eru ekki komnar fastar dagsetningar út sumarið. Þá verða í boði bæði hádegis- og síðdegistímar auk fjölskyldutíma og „happy hour“ tíma. „Hversu fullkomið er að koma um fimm leytið úr vinnunni, fara með vinunum að hrista sig og vera asnalegur úti á götu og fara svo í drykk?“ segir Margrét Erla. 

Upplýsingar um danstímana munu birtast á Facebook síðu Kramhússins í sumar. Þórdís Nadia og Margrét Erla sögðu frá verkefninu í Síðdegisútvarpinu í dag en viðtalið í heild sinni má heyra í spilaranum hér fyrir ofan.