Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hjúkrunarfræðingar samþykkja verkfall

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Yfirgnæfandi meirihluti hjúkrunarfræðinga samþykkti verkfallsaðgerðir. Þetta er niðurstaða atkvæðagreiðslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um verkfallsboðun. Já sögðu 85,5 prósent og nei 13,3 prósent.

Á grundvelli þessarar niðurstöðu tilkynnir stjórn félagsins hér með um að samþykkt hefur verið að boða til ótímabundins verkfalls mánudagsmorguninn 22. júní 2020 klukkan átta og standa yfir fram til þess tíma er samkomulag um kjarasamning hefur náðst milli aðila. 

Atkvæðagreiðslan náði til hjúkrunarfræðinga sem starfa á kjarasamningi félagsins hjá ríkinu. Alls tóku 2.143 þátt í atkvæðagreiðslunni og kosningaþátttaka því 82,2 prósent. 

Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir niðurstöðuna mjög afgerandi. Náist ekki að semja fyrir 22. júní fari hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá ríkinu um land allt í verkfall. „Við erum að tala um allt landið; allar heilbrigðisstofnanir og þá vinnustaði sem hafa hjúkrunarfræðinga í vinnu á þessum samningi, sem eru þarna undir.“

Í tilkynningu á vef félagsins kemur fram að mikið beri í milli í viðræðum um launalið nýs kjarasamnings. Samningaviðræður hafa nú staðið yfir í rúman mánuð eftir að hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning í lok apríl. Hjúkrunarfræðingar krefjast þess að grunnlaun stéttarinnar verði hækkuð. 

Tæplega 15 mánuðir eru liðnir frá því að Gerðardómur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga rann út og þar með miðlægur kjarasamningur félagsins.

Næsti samningafundur verður boðaður af ríkissáttasemjara.