
Fjallað er um tengsl málanna í Spiegel, sem segir það hafa verið rannsókn á máli seinni stúlkunnar sem beindi athygli þýsku lögreglunnar að máli Madeleine.
Sú stúlka hét Inga og var ljóshærð líkt og Madeleine McCann. Hún hvarf í Saxlandi árið 2015. Hvorug þeirra hefur nokkurn tímann fundist.
Maðurinn, Christian Brückner, á að baki langan sakaferil og hefur meðal annars verið dæmdur fyrir barnaníð.
Að sögn Spiegel átti hann árið 2013 í samræðum á Skype við annan mann um að hann langaði til að ræna og nauðga ungri stúlku og að sú stúlka myndi aldrei finnast.
Áður hefur komið fram að Christian B. hafi verið búsettur í Praia da Luz, bænum sem Madeleine hvarf frá er hún var þar í sumarleyfi með foreldrum sínum og er hann meðal annars grunaður um að hafa nauðgað 72 ára bandarískri konu í portúgalska bænum tveimur árum fyrr.
Christian B. er nú í fangelsi í borginni Kiel vegna dóms sem hann hlaut fyrir fíkniefnabrot.