Græða 300 hektara lands í Hítardal

05.06.2020 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd: Áskell Þórisson - Aðsend
Þriggja ára landgræðsluverkefni í Hítardal sem nú fer af stað á að hjálpa til við að endurheimta gróðursæld fyrri alda í dalnum. Græða á um 300 hektara í dalnum. Verkefnið mun kosta um 34 milljónir. Rúm þrjátíu ár eru síðan Hítardalur var friðaður. Í honum er stórt uppblásturssvæði sem talið er hafa verið þakið birkikjarri áður fyrr.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir marga kosti fylgja verkefninu.

„Það eru fjölmörg verkefni svipuð þessu í bígerð. Stjórnvöld leggja áherslu á að við séum að horfa á samlegðina í því að vinna og sporna gegn loftslagsbreytingum með því að binda kolefni úr andrúmslofti, vinna gegn landeyðingu og endurheimta líffræðilega fjölbreytni og það lífríki sem áður prýddi þessi svæði.“

Gert í samstarfi við bændur í Hítardal

Unnið verður að verkinu í samstarfi við bændur í dalnum. Árni Bragason, landgræðslustjóri, segir að allir bændur í Hítardal séu annað hvort í verkefninu Bændur græða landið eða landbótasjóðsverkefnum.

„Það á að reyna að taka á tiltölulega skömmum tíma stórátak og loka þessum helstu svæðum. Það sem við erum að gera er að búa okkur undir að geta tekið við sjálfsáningu. Nota náttúruna og fá hana til að hjálpa okkur,“ segir Árni.

Áhrif græðslunnar á að gæta næstu áratugina

Næstu þrjú árin eigi því að búa svo um að birki, lyng og önnur flóra geti dreift sér um dalinn með betra móti.

Kristín Svavarsdóttir er plöntuvistfræðingur hjá Landgræðslunni.

„Gróðurtorfurnar hafa ekki verið að dreifa úr sér, því það eru ekki aðstæður í kring fyrir birkið til að nema land. Þannig við þurfum að vinna með þessum mismunandi þáttum. Það er annars vegar að hafa birkifræið og hins vegar öruggu setin, eins og við köllum, eða fræsetin. Þannig að aðstæður skapast fyrir birkifræ til að spíra og litlu plönturnar geta vaxið upp,“ segir Kristín.

Hún segir því að verkefnið lifi áratugum lengur, eftir því sem flóran byggist upp í Hítardal á ný.

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi