Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Glúrið tilraunapopp

Mynd með færslu
 Mynd: Skoffín

Glúrið tilraunapopp

05.06.2020 - 13:02

Höfundar

Önnur plata Skoffín ber nafnið Skoffín hentar íslenskum aðstæðum og hún er skemmtileg. Skoffín á plötu vikunnar á Rás 2 að þessu sinni.

Skoffín gladdi okkur síðasta vor með plötunni Skoffín bjargar heiminum og snýr nú aftur með plötu sem ber svipað heiti, eða er í sama kerknislega gírnum hvað nafngift varðar a.m.k.. Innihaldið er ekki ósvipað heldur, en ég vil samt tala um vissa framför.

Giska virkur

Skoffín byrjaði sem sólóverkefni gítarleikarans og söngvarans Jóhannesar Bjarka Bjarkasonar. Hann hefur lengi verið giska virkur innan post-dreifing listasamlagsins og tónlist eftir hann nær allt aftur til 2016. Skoffín er hins vegar fullburða hljómsveit í dag en ásamt Jóhannesi (gítar, söngur) skipa nú sveitina þeir Bjarni Daníel (gítar, bakraddir), Auðunn Orri Sigurvinsson (bassi, bakraddir) og Sævar Andri Sigurðarson (trommur). Platan var tekin upp í London, af Árna Hjörvari Árnasyni (The Vaccines).

Tema plötunnar er forvitnilegt. Lævi blandið andrúmsloft íslensku kaldastríðsáranna liggur til grundvallar textum og flæði en lög eru brotin upp með gömlum auglýsingum og fréttastefum. Meðlimir, sem voru fæddir löngu eftir að kaldastríðinu lauk, eru hins vegar að skapa sér ímynda fortíð að eigin sögn, eðlilega. Fyrir þann sem ritar, sem upplifði tal um kjarnorkuknúinn heimsendi í rauntíma, er dálítið merkilegt á að hlýða. Sérstaklega kippist maður við þegar gömul fréttastef og raddir fljóta inn. Ekki óþægilega beint, en ókennileg nostalgía rennur um mann engu að síður.

En tónlistin sjálf? Fyrsta plata Skoffín var skemmtileg og fersk. Byggð á tilkeyrðum indírokkgrunni en stundum brugðið hressilega á leik. Innan um tiltölulega hefðbundið indípopp/rokk var að finna hávaðagjörninga og annað slíkt dútl. Þessi plata er öðruvísi, ég vil ekki endilega segja betri, en jú, framför á ýmsum sviðum. Fyrir það fyrsta er hún heilsteyptari, rennur betur, kannski vegna temans. Hún er til muna þéttari, maður heyrir vel að það er band að spila hana. Hljómur er þá þéttur og góður líka. Þetta heyrist vel í „Sætar stelpur“ t.d., dansandi bassi og góðir gítarar, hörkuslagari. „Síðasti bærinn í dalnum“ er ört og æsilegt og með glúrnum vísunum í „doo-wop“, bregður upp mynd af rokkárunum, bæði í uppleggi og titli.

Söngrödd Jóhannesar er skemmtilega „beint af kúnni“ og bakraddir hæfilega amatörlegar. „Skoffín vinnur sem tæknifræðingur hjá borginni“ er úr sama ranni og skemmtilega draugalegur blær yfir (David Lynch stýrir upptökum fyrir The Flamingos?). „Er það samt eitthvað“ skautar nærri nýrri tímum, Byrdsleg níunda áratugs nýbylgja og vel heppnað sem slíkt. Kraftur, og bakraddir gera líka mikið fyrir þessa plötu. Þær eru gáskafullar oft, hálfbjánalegar stundum, en passa alltaf nákvæmlega við! „Lýsi í tunnunni“ er drífandi bílskúrsrokk og hrátt eftir efninu. Plötunni er slaufað með „Hvar eru allir“, haganlega samsettu lagi án söngs.

„Skemmtilegt“

Þessi plata er góð, sniðug og skemmtileg. Ég elska þetta orð, „skemmtilegt“. Er það ekki lokatakmark allra þeirra sem stunda popp/rokk? Að vera, fyrst og síðast, skemmtilegir. Tröll taki öll þessi alvarlegheit! Þetta orð fellir ekki list að mínu mati, nema síður sé. Allt í allt, verulega vel heppnuð plata og margt sem er í betra fari en síðast eins og nefnt hefur verið. Glæsilegt!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Ímynda sér lævi blandið andrúmsloft kaldastríðsáranna

Popptónlist

Glitrandi indípopp

Popptónlist

Skoffín - Skoffín bjargar heiminum

Tónlist

Ungæðislegur galsi og gæði í mörgum geirum