Faðirinn kenndi henni rétta hegðun í návist lögreglu

Mynd: Sunna Sasha / Facebook

Faðirinn kenndi henni rétta hegðun í návist lögreglu

05.06.2020 - 14:08
Sunna Sasha Larosiliere stjórnmálafræðingur á bandaríska fjölskyldu og þeldökkan föður. Auk þess að vera sérfróð um bandarísk stjórnmál er hún með meistaragráðu í krísustjórnun. Sunna hefur því einstaka sýn á mótmælin sem nú geisa í Bandaríkjunum og málstaðinn sem að baki þeim liggur. Sunna var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Sunna segir að það sem COVID-19 hafi gefið henni og fjölskyldu hennar er að þó þau séu mikið í sundur hafi þau aldrei verið jafn náin og tala mun oftar saman. Faðir hennar hefur verið í einangrun í tvo og hálfan mánuð því hann er í miklum áhættuhópi. Hún segir að ástandið sem er í gangi eftir morðið á Georg Floyd hafi að sjálfsögðu ekki farið fram hjá henni og fjölskyldu hennar og hefur hún rætt þetta mikið við föður sinn. „Enn eitt dæmi af morði af hálfu lögreglunnar gagnvart svörtu fólki, sama sagan bara nýtt myndband.“

Hún segir að mikið hafi borist til tals núna nýverið hvernig það sé að alast upp sem litað barn. „Það er sem sagt önnur umræða sem á sér stað á heimilinu, bara hvernig þú átt að haga þér ef lögreglan sýnir þér einhverja athygli, hafa hendur alltaf sýnilegar, ekki ganga í hettupeysum, ekki fara út á einhverjum ákveðnum tímum kvölds og helst ekki vera með húfu svo það sjáist ekki í andlitið á þér, svo þú sért ekki ógnandi.“ Sunna er af blönduðum uppruna og mun ljósari á hörund en föðurfjölskylda hennar og því ekki álitin svört í Bandaríkjunum. 

Þegar Sunna er úti með föður sínum þá finnur hún hvernig viðmótið gagnvart honum er allt öðruvísi. Faðir hennar flutti frá Haítí þegar hann var fjórtán ára og kunni þá ekki ensku. Hann átti erfitt með að aðlagast aðstæðum því hann þurfti að læra það að hann kæmi frá svartri þjóð og því hafi hann ekki sömu tækifæri, þó hann sé háskólamenntaður. Hann fær boð í atvinnuviðtöl og mætir á staðinn og þá er honum sagt að það sé búið að ráða í stöðuna. „Þú heitir frönsku nafni og það er mjög villandi,“ segir Sunna. Þetta komi fyrir aftur og aftur.

„Það er þessi kerfislæga mismunun sem var alltaf fremur ósýnileg fyrr en þau byrja að tikka saman og þá áttar maður sig á því að annað fólk lendir kannski ekki í þessu.“ Frá því að Sunna var lítil hefur umræðan á hennar heimili því alltaf verið að svona séu kynþáttasambönd í Bandaríkjunum. Hún hafi ekki verið mjög móttækileg fyrir þessu þegar hún var yngri. „Ég sagði: Það er enginn rasismi á Íslandi. Mér líður ótrúlega vel á íslandi,“ segir hún. Eftir því sem hún varð eldri hafi hún farið að taka mun meira eftir þessu, bæði að sjá myndbönd á samfélagsmiðlum og svo beint fyrir framan sig og hún sé að sjálfsögðu reið yfir þessu. Hún segir að systkini hennar séu mun meðvitaðri um ástandið en hún var þegar hún var yngri.

Viðtalið við Sunnu má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.