Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Enn óljóst hvort útlendingar komi til laxveiða í sumar

05.06.2020 - 12:51
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Enn ríkir óvissa um það hvort erlendir laxveiðimenn koma og veiða í íslenskum ám í sumar. Áhuginn er til staðar en ferðatakmarkanir setja mönnum enn þá stólinn fyrir dyrnar. Líkurnar minnka eftir því sem ákvarðanir um afléttingu dragast á langinn.

Þessa dagana er verið að opna fyrstu laxveiðiárnar og byrjunin lofar góðu með veiðina. Óvíst er hins vegar hvort helstu viðskiptavinir veiðifélaganna, erlendir laxveiðimenn, koma til landsins.

Strangar ferðareglur í Bretlandi hafi mikil áhrif

Júnímánuður er að mestu talinn tapaður og þó opnað verði fyrir ferðir til landsins 15. júní eru áfram ferðatakmarkanir til og frá öðrum löndum. „Til dæmis er stór hluti af þessum erlenda markaði í stangveiði hér á Íslandi Bretar,“ segir Þröstur Elliðason, hjá veiðiþjónustunni Strengjum. „Þar eru í gildi strangari reglur gagnvart því þegar þeir koma heim til sín upp á sóttkví. Þannig að þeir eru nú ekki mikið að leggja í ferðalög í augnablikinu. Og það er óvissa hvenær sóttkví þeirra megin verður aflétt.“

Töluverður skellur fyrir veiðileyfasölur

Hann segir að líkurnar á því að erlendir veiðimenn komi hingað minnki eftir því sem óvissan vari lengur. „Það er alveg ljóst að þetta er töluverður skellur sem verður í sumar hjá öllum veiðileyfasölum.“

Eldri menn sem treysti sér ekki í ferðalög

En veiðileyfin sem ekki seljast til útlendinga fari á innanlandsmarkað. Þar sé mikill áhugi en veiðileyfi til íslenskra veiðimanna verði seld með afslætti. Þá sé líklegt að Norðurlandabúar komi í sumar og fólk frá löndum þar sem eru litlar ferðatakmarkanir. „En samt, óvissan er mikil hve mikið það verður. Það verður bara að segja alveg eins og er. Og líka það að mikið af þessum erlendu veiðimönnum eru eldri menn, vel stæðir, og þeir munu ekki svo auðveldalega fara upp í flugvélar og ferðast í gegnum flugstöðvar á þessum tímum. Það verður að segja alveg eins og er.“