Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Engar sannanir um misgjörðir Bidens

05.06.2020 - 06:31
epa07872759 (FILE) - Then US Vice President Joe Biden (R) tours a Hutong alley with his son Hunter Biden (L) in Beijing, China, 05 December 2013 (reissued 27 September 2019). An impeachment inquiry against US President Donald J. Trump has been initiated following a whistleblower complaint over his dealings with Ukraine. The whistleblower alleges that Trump had demanded Ukrainian investigations into US Presidential candidate Joe Biden and his son Hunter Biden's business involvement in Ukraine.  EPA-EFE/ANDY WONG / POOL
 Mynd: EPA
Engar sannanir fundust við endurskoðun á þúsundum gamalla skýrsla er varða störf Hunter Biden, sonar forsetaframbjóðandans Joe Biden, í Úkraínu. Ruslan Ryaboshapka, fyrrverandi ríkissaksóknari Úkraínu, sá um rannsóknina á störfum Bidens í stjórn orkufyrirtækisins Burisma á árunum 2014 til 2019.

Hunter Biden var dreginn í sviðsljósið í fyrra, eftir að ljóstrað var upp um að Donald Trump Bandaríkjaforseti krafði nýkjörinn forseta Úkraínu, Volodymyr Zelensky, um rannsókn á störfum hans þar í landi. Þegar Trump bað Zelenzky um rannsóknina var Joe Biden efstur í könnunum meðal frambjóðenda Demókrataflokksins, og því líklegur andstæðingur Trumps í haust, sem hann og varð.

Uppljóstrunin um símtalið leiddi til ákæru á hendur Trump fyrir að misbeita valdi sínu með því að biðja erlent ríki um aðstoð við rannsókn á pólitískum andstæðingi.

Ryaboshapka rétti maðurinn

Zelensky sagði í símtalinu við Trump að Ryaboshapka væri rétti maðurinn til að rannsaka málið. Eftir að Ryaboshapka tók við embætti ríkissaksóknara í október biðu hans mörg gömul mál, hefur Guardian eftir honum. Þeirra á meðal voru mál tengd Burisma, þar sem Hunter Biden var stjórnarmaður frá 2014 til 2019. Ryaboshapka bað þá sem fóru yfir skjöl fyrirtækisins sérstaklega um að leita eftir málum tengdum Biden. Engar sannanir fundust um að Biden hafi gert nokkuð saknæmt á meðan hann sat í stjórn. 

Ryaboshapka var svo rekinn úr embætti ríkissaksóknara í mars, þar sem þingmönnum þótti hann heldur seinn til verka. Sjálfur segist hann hafa verið rekinn þar sem hann hafi verið byrjaður á fyrstu alvöru umbótunum í embættinu, og það hafi ekki fallið í kramið hjá spilltum stjórnmálamönnum.