Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

COVID-19 og stéttaskipting í Brasilíu

Mynd: EPA-EFE / EFE

COVID-19 og stéttaskipting í Brasilíu

05.06.2020 - 16:30

Höfundar

Stéttaskipting og félagslegt misrétti eru meðal ástæðna þess að Brasilía hefur farið mjög illa út úr kórónuveirufaraldrinum. Sægur vinnukvenna ferðast daglega á milli hverfa fátæklinga og hinna betur stæðra. Stéttaskipting og félagslegt misrétti eru meðal ástæðna þess að Brasilía hefur farið mjög illa út úr kórónuveirufaraldrinum. Sægur vinnukvenna ferðast daglega á milli hverfa fátæklinga og hinna betur stæðra. Nú hafa 618 þúsund greinst smitaðir í Brasilíu og 34 þúsund er skráðir látnir.

Sjúkrahús í Brasilíu hafa engan veginn undan og líklega er fjöldi smitaðra og látinna verulega vantalinn í opinberum tölum. Fjöldi fólks deyr heima hjá sér enda hafa fæstir efni á öndunarvélum einkarekinna hátæknisjúkrahúsa. Forsetinn Jair Bolsonaro hefur gert lítið úr vandanum, talað um væga flensu og hvatt landsmenn til mæta til vinnu. Hjól efnahagslífsins verði að halda áfram að snúast.

Gríðarleg stéttaskipting

Byggingar í stórborgum eins og Rio de Janeiro eru skipulagðar í samræmi við stéttaskiptingu landsins. Iðulega eru tvær lyftur, önnur fyrir íbúana en hin fyrir þjónustufólkið, og með sama hætti tveir inngangar í hverja íbúð. Samgangur heldra fólks og þjónustuliðs á ekki að vera meiri en nauðsyn krefur. Efnaðra fólkið býr yfirleitt nær ströndinni en þjónustufólkið í fátækrahverfunum eða favellunum uppi í hlíðunum. Sundlaugar má sjá á þökum efnafólksins en í hreysunum eru tankar til að safna regnvatni.

epa08459087 A group of artists perform 'Who left is someone's love', to pay honor to the victims of COVID-19, in Brasilia, Brazil, 01 June 2020.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE

Fyrsta skráða dauðsfallið í Brasilíu var einmitt Cleonice Gonçalves, sextíu og þriggja ára heimilishjálp úr fátækrahverfi. Hún var með undirliggjandi sykursýki. Húsráðendur höfðu farið til Ítalíu í skemmtiferð en greinst með COVID-19 við komuna til landsins. Þau töldu ekki ástæðu til að láta húshjálpina vita. Cleonice Gonçalves hélt því áfram að vinna en lést á almenningssjúkrahúsi nokkrum dögum síðar, án þess að fá nokkra greiningu. Sjúkdómurinn grasserar í fátækrahverfunum en ekkert lát er á stöðugum straumi vinnufólks frá favellunum til stöndugri borgarhluta. Margir reyna að draga enn frekar úr samskiptum, halda fjarlægð eða fækka vinnudögum en fæstir treysta sér til að lifa án húshjálpar sem er rótgróin í menningunni.

Sex ríkustu eiga meira en helmingur þjóðarinnar

Stéttaskipting er óvíða meiri en í Brasilíu. Sex ríkustu menn landsins eiga meira en fátækari helmingur landsins til samans eða meira en 100 milljónir manna. Ríkasta tíund þjóðarinnar fær fimmtíu og fimm prósent af öllum tekjum landsmanna en helmingur þjóðarinnar þarf að lifa á því sam jafngildir tíu þúsund krónum á mánuði. Það á við um flestar þær konur sem sinna húshjálp en þær eru fimm hundruð þúsund talsins, bara í Rio de Janeiro. Mikill meirihluti þeirra er dökkur á brún og brá og flestar komnar af léttasta skeiði. Eiginkonur á betri bæjum vilja síður ungar og laglegar stúlkur af ótta við að eiginmennirnir falli í freistni.

A graffiti of Brazil's President Jair Bolsonaro wearing a protective mask in Rio de Janeiro, Brazil, Tuesday, April 7, 2020. Brazil is in the midst of a pitched battle over the effectiveness of isolation to avoid the spread of the new coronavirus, with Bolsonaro dismissing the virus’ severity and publicly taking aim at governors who impose shutdowns that he says could cripple the economy. (AP Photo/Silvia Izquierdo)
 Mynd: AP

Í heild voru um fimm milljónir manna; karla, kvenna og barna; fluttar nauðungarflutningum yfir Atlantshafið frá Afríku allt til loka nítjándu aldar. Þrælarnir voru nýttir á plantektrum til sveita en ekki síður sem húsþrælar í borgum landsins. Það var ekki bara yfirstéttin sem nýtti sér þjónustu þrælanna, enginn var maður með mönnum ef hann hafði ekki húshjálp á sínum snærum. Húsþræll var stöðutákn.

Stéttaskiptingin að mestu óbreytt

Brasilía var síðust landa í Suður-Ameríku til að afnema þrælahald, árið 1888, enda andstaðan mikil meðal landsmanna. Margir segja að afnám þrælahalds hafi í raun ekki breytt miklu. Sama fólkið sé að vinna sömu störfin, þótt nú sé þetta fólk ekki þrælar, heldur ódýrt vinnuafl. Það var ekki fyrr en árið 2013 sem þetta þjónustufólk fékk lögformlega stöðu sem vinnandi fólk. Með löglegan ráðningarsamning getur það nú fengið greitt fyrir yfirvinnu, öðlast lífeyri og fengið atvinnuleysisbætur. Lagabreytingin hafði þó í raun ekki mikil áhrif. Langflestir héldu óformlegu ráðningarsambandi og eru því jafn réttlausir sem fyrr. Börn vinnuhjúanna fara áfram í lélega almenningsskóla og eiga litla sem enga möguleika á æðri menntun. Stéttskiptingin er að mestu óbreytt og fólk situr fast á sínum stað í þjóðfélagsstiganum.

epa04062867 An overview of Ipanema (L) and Copacabana beaches, in Rio de Janeiro, 07 February 2014.  EPA/MARCELO SAYAO
Ólympíuleikarnir verða í Ríó í sumar. Mynd: EPA - EFE

Alþjóðabankinn telur að fimm milljónir manna lendi í algjörri örbirgð vegna kórónuveirufaraldursins í Brasilíu og að fimmtíu milljónir landsmanna gætu ekki látið enda ná saman án þeirra 100 evra sem stjórnvöld færa þeim mánaðarlega sem neyðaraðstoð í yfirstandandi faraldri. Það jafngildir um fimmtán þúsund krónum á mánuði. Faraldurinn er nú einna verstur í Suður-Ameríku og Brasilía hefur orðið hvað harðast úti. Sjúkdómurinn grasserar í fátækrahverfunum en berst með húshjálpinni til betri hverfanna. Húshjálpin er talin nauðsynlegur þáttur samfélagsins í Brasilíu.