Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bændur hýstu fé vegna veðurs

05.06.2020 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: Hildur Stefánsdóttir
Bændur á Norðausturlandi þurftu sumir að hýsa fé í nótt vegna veðurs. Einn þeirra segir veðrið þó ekki svo slæmt og lítið annað að gera en að bíða það af sér. Fé er enn á gjöf þar sem gras er lítið farið að spretta eftir erfiðan vetur og það gengur hratt á heybirgðir.

„Það snjóar núna. Gengur á með éljum en festir ekki, nema uppi í heiði - þar er grátt,“ sagði Sigurður Þór Guðmundsson bóndi á Holti í Þistilfirði þegar fréttastofa sló á þráðinn til hans í morgunsárið. 

Þarf að tryggja öllum skjól

Á bænum eru hátt í 400 kindur. Um 350 eru bornar svo hausarnir eru hátt í 1000 og það þurfti að smala og tryggja að allir hefðu skjól áður en veðrið versnaði í gær. Sigurður segir þau búa vel enda hafi verið unnið að því markvisst síðustu 40 árin að byggja hagahús svo lömbin geti alltaf leitað skjóls, þau hafi því nóg pláss.

„Það er stórkostlega merkilegt að fylgjast með rollunum. Þegar veðrið fór að versna þá hlupu þær inn í hlöðu með lömbin, skildu þau eftir og fóru út að bíta. Höfðu vit á því að koma lömbunum í skjól. Þær eru ótrúlega snjallar þegar þær hafa aðstæður til að nýta sér,“ segir Sigurður Þór. 

Dýrunum kólnar hratt ef þau blotna

Hann segir veðrið hins vegar ekki eins og það geri verst orðið þar sem snjórinn sé þurr. „Það er allt í lagi að fá einn þáttinn, rigningu, kulda eða vind en ef tveir koma saman þá er það vont.“ Dýrunum kólni hratt ef það sé bæði úrkoma og kuldi, sérstaklega ef þau blotni. Veðri ætti að hafa slotað um miðjan dag, svo það þurfi bara að bíða þetta af sér. 

Gengur hratt á heybirgðir

Hann segir sauðburð að mestu hafa klárast um síðustu helgi. Bændur hafi margir hverjir beðið með að setja ærnar út vegna slæmrar veðurspár, annars ætti allt fé að vera úti núna. Grasið sé hins vegar lítið farið að spretta eftir erfiðan vetur. Féð sé allt á gjöf og það gangi hratt á heybirgðir hjá mörgum bændum og víða sé lítið til. Sigurður sleppir sínu fé upp á heiði, hann segir það verða mun seinna í ár en venjulega.