Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þriðjungur þjóðarinnar greiðir fyrir Spotify

Mynd: RÚV / RÚV

Þriðjungur þjóðarinnar greiðir fyrir Spotify

04.06.2020 - 11:36

Höfundar

Íslenskum notendum Spotify hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár og áskrifendur sem greiða fyrir þjónustuna eru nú orðnir næstum 100.000, að sögn Eiðs Arnarssonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra hljómplötuframleiðanda.

„Meira að segja inni í þeim tölum er svokölluð fjölskylduáskrift bara talin einu sinni, svo rauntalan er líklega nær 135.000,“ segir Eiður í samtali við Morgunútvarpið. Hann segir töluna háa í alþjóðlegum samanburði, til dæmis sé hlutfallið í Svíþjóð þaðan sem Spotify kemur frá um 20-25%. „Þannig við erum langt fyrir ofan Svíþjóð. Noregur er eitthvað nær okkur, en önnur lönd sem ég þekki til eru töluvert neðar.“ Eiður segir ástæðuna fyrir mikilli Spotify-notkun Íslendinga líklega felast í því að Íslendingar séu tæknivædd þjóð og snjallsímaeign sé gríðarmikil og internettengingar margar og góðar.

Þrátt fyrir þetta gæti staða íslenskra tónlistarmanna í streymisveruleikanum verið betri og Eiður segir hlutdeild íslenskrar tónlistarhlustunar á Spotify lækkað miðað við plötusöluna áður. „Það getur átt sér ýmsar skýringar, ekki síst flóknar sem tengjast ólöglegri dreifingu á netinu. Hún hófst með afskaplega miklum krafti árið 2000 með napster. Þá minnkaði erlend tónlist í sölu en íslensk jókst, ekki bara hlutfallslega.“ Ef ætlunin sé að finna samanburð við ástandið núna sé nærtækara að fara aftur fyrir aldamótin. „Vegna þess að þá er neyslan er uppi á borðinu, hún hvarf svo eftir 2000. Þá var íslenska tónlistin í kring um 30% sölunnar en núna erum við í 23%. Þannig við erum nálægt.“ Eiður segir að þetta megi líklega rekja til þess að framboðsstýring plötubúðanna sé ekki lengur fyrir hendi. „Ef þú labbaðir inn í plötubúð 1999 voru kannski einhver þúsund mismunandi titlar í boði, á Spotify eru 40 milljónir laga í boði og mjög lítið hlutfall þeirra íslensk. En í plötubúðinni var kannski nokkuð stór hluti úrvalsins íslensk tónlist.“

En þetta hefur líka ýmsar breytingar á hlustunarmynstur í för með sér, til að mynda geta lagalistar sem Spotify setur saman, með til dæmis hugleiðslulögum eða fágaðri dinnertónlist, orsakað að listamenn sem fáir þekkja fá miklar tekjur, en Eiður nefnir sem dæmi um slíkt hljómsveitina Huga, en lag þeirra Inngangur er með 31 milljón spilarnir. Erfitt sé þó að segja til almennt um hvort að tónlistarmenn nái að lifa af streymistekjum eður ei. „En á Íslandi, miðað við það verð sem er greitt fyrir áskrift, þá er ein spilun að skila útgefendum, flytjendum og höfundum samtals 90 aurum. En hafa ber þá í huga að streymin á Íslandi árið 2019 voru milljarður og 45 milljónir.“

Annað sem hefur breyst er að tónleikahald hefur orðið aðaltekjulind fyrir flesta tónlistarmenn, og samkomubann var því gríðarlegur skellur fyrir marga. „Fyrir 30-40 árum fórstu í tónleikaferðalag til að auka plötusölu, í dag gefurðu eiginlega út plötur til að fá fleira fólk á tónleika. Það varð algjör umsnúningur.“ Þrátt fyrir þetta erfiða tekjumódel er gríðarlega mikil gróska í plötuútgáfu og Eiður telur það sé hreinlega út af því að fyrir langflestum sé þetta ástríða og sköpunarþörf. „Sem betur fer. Á ekki listalífið að vera þannig?“

Tengdar fréttir

Menningarefni

Joe Rogan gerir milljarða samning við Spotify

Popptónlist

Spotify birtir mest streymdu tónlistina

Tónlist

Dularfullur draugagangur á Spotify

Popptónlist

Er Spotify að fella alla tónlist í sama mótið?