Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Stærsta þekkta mannvirki Maya fannst í Mexíkó

04.06.2020 - 04:48
epa02608409 A general view of Tikal, the most important city of the ancient Maya civilization at the province of Peten, 569 km north from Guatemala City, 28 February 2011. Tikal was one of the main cultural centers of the Maya civilization and was
 Mynd: EPA
Fornleifafræðingar fundu nýverið stærsta og elsta mannvirki sem byggt var á tímum Maya, svo vitað sé. Risastór ferhyrndur flötur á upphækkun fannst í Tabasco-fylki Mexíkó. Talið er að hann hafi verið reistur á milli áranna 1000 og 800 fyrir okkar tímatal. 

Ólíkt pýramídum Maya, sem voru reistir um 1.500 árum síðar, er mannvirkið ekki reist með steinum, heldur leir og jarðvegi. Fornleifafræðingar telja það hafa verið notað til að hýsa mjög fjölmennar athafnir.

Mannvirkið er um 560 þúsund fermetrar og stendur í um tíu til fimmtán metra hæð. Engin merki voru um höggmyndir af hátt settu fólki. Fornleifafræðingar telja það þýða að á þessum tíma hafi samfélagi Maya verið samheldnara, og ójöfnuður hafi komið síðar með stéttskiptu samfélagi.

Takeshi Inomata, fornleifafræðingur við háskólann í Arizona, segir í samtali við Guardian að þar sem mannvirkið sé svo stórt geri fólk engan greinarmun á því og öðru í landslaginu þegar það gengur ofan á því. Ný tækni við fornleifarannsóknir veiti þeim hins vegar betri sýn á hvað landsvæðið hefur að geyma. Leysigeislatækni er notuð þegar flogið er yfir svæðið til þess að setja saman þrívíddarmynd af landinu. 

Níu stórir vegir liggja að mannvirkinu og nokkur uppistöðulón. Inomata telur fólk hafa komið saman úr mörgum áttum við sérstök tilefni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV