Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Skakkir prestar

04.06.2020 - 19:32
Úr umfjöllun Kveiks um kannabis.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Fornleifafræðingar í Ísrael hafa fundið leifar af hassi í rústum við hina fornu borg Arad í Ísrael. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem fornleifafræðingar finna kannabis frá járnöld, í fyrra fundust hassleifar í 2.500 ára gömlum leirpottum í Vestur-Kína.

Fundurinn í Arad er hins vegar fyrsta vísbendingin um að hass hafi verið notað í Ísrael og Palestínu til forna, en borgin Arad kemur nokkrum sinnum fyrir í Gamla testamentinu.

Anne Katrine Gudme, fornleifafræðingur við Óslóarháskóla sem hefur stundar rannsóknir á trúarbragðasögu í Palestínu á járnöld, segir í samtali við danska ríkisútvarpið að þessi uppgötvun sé afar spennandi og staðfesti það sem fræðimenn hafi lengi grunað, nefnilega að vímuefni hafi lengi verið notuð við helgisiði á svæðinu í kringum Miðjarðarhafið.

Við vitum til dæmis í gegnum gríska prestinn og heimspekinginn Plútarkos að véfréttin í Delfí andaði að sér gufum og tuggði hugsanlega einnig blöð sem komu henni í vímukennt ástand. Og það er ekki óhugsandi að einmitt þess vegna hafi véfréttin talað í gátum sem ekki var öllum gefið að skilja.
 

 

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV