Ólíklegt að Chauvin verði sakfelldur

04.06.2020 - 19:30
Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ólíklegt er að Derek Chauvin, sem ákærður hefir verið fyrir morð af ásetningi, verði sakfelldur. Þetta er mar Margrétar Valdimarsdóttur afbrotafræðings, sem hefur stundað nám í Bandaríkjunum og þekkir vel bandarískt réttarkerfi.

 

Margrét segir þessi mál ekki bera vott um aukna misbeitingu valds, eða að atvikum þar sem lögreglan verður einhverjum að bana sé að fjölda. Hún segir skýr dæmi í samfélaginu og réttarkerfinu í heild um mismunun og kynþáttafordóma. Ástæðan fyrir umfangsmiklum mótmælum núna sé meðal annars að sá hópur sem búinn sé að fá nóg sé að stækka.

Bandaríkjaforseti eigi líka sinn þátt í því að þetta brýst út núna. „Hann hefur ekkert gert til að sameina þjóðina. Þvert á móti hefur hann ýtt undir sundrungu og viðhorfið, við á móti þeim. Og það viðhorf, við á móti þeim, eins og þetta séu ólíkir hópar sem ná alls ekki saman, það er rótin að vandanum.“

Margrét bendir á að lögreglan í Bandaríkjunum valdi dauða um þúsund manns á ári. Á því séu tvær megin skýringar. Annars vegar hafi kvörtunum borgara ekki verið tekið nógu alvarlega í langan tíma, og upplýsingum um þær sé ekki safnað. Hins vegar séu þeir hluti af samfélagi þar sem kynþáttafordómar viðgangast, og því treysti minnihlutahópar ekki lögreglunni.
„Lögreglan í Bandaríkjunum, víða í Bandaríkjunum, er miklu líklegri til að óttast svart fólk. Þessi ótti verður til þess að samskiptin verða viðkvæm, að það þurfi lítið til þess að draga upp skotvopn, samskiptin verða harðneskjulegri o.s.frv.“

Meðal þess sem mótmælendur hafa bent á er að sakfelling er sjaldgæf í svona málum.  Margrét segir líkurnar á sakfellingu í þessu máli hafa minnkað eftir að ákæru á hendur Derek Chauvin var breytt úr manndrápi af gáleysi í manndráp af ásetningi.

„Með því að breyta því þarf að færa sönnur fyrir ásetningi. Það er mjög erfitt. Þannig að ég held að það séu ekki miklar líkur á að hann verði sakfelldur þrátt fyrir öll þessi mótmæli, því miður.“

 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi