Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lítið um lokanir á Landspítala í sumar

Mynd með færslu
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist - RÚV
Talsvert minna verður um lokanir á Landspítala í sumar en verið hefur undangengin sumur. Þetta segir Páll Matthíasson forstjóri spítalans. Hann segir að betur gangi að fá fólk til afleysinga nú en áður. 

„Lokunum á spítalanum verður háttað þannig að það verður mun minna um lokanir í sumar en oft hefur verið mörg undanfarin ár,“ segir Páll. „Þær deildir sem fyrst og fremst  helst loka eru deildir í skurðlækningaþjónustu sem eru að sinna skurðaðgerðum sem dregur töluvert úr, sérstaklega valkvæðum aðgerðum yfir hásumarið.“

Nær engin fækkun legurýma á almennum deildum

Páll segir að á almennum deildum verði nær engin fækkun legurýma. Vel hafi gengið að fá fólk til sumarafleysinga og margir hafi hækkað starfshlutfall sitt í kjölfar covid-19 farsóttarinnar. Þá hafi uppsagnir hjá flugfélögunum leitt til meira framboðs af heilbrigðismenntuðu fólki.
Fresta þurfti fjölda aðgerða á Landspítala vegna COVID-19 faraldursins. Páll segir að lengri biðlista sé enn ekki farið að gæta, en búast megi við því síðar í ár.

„Það er væntanlega vegna þess að fólk hefur ekki einu sinni komist í viðtöl þar sem það er metið varðandi þörfina á að fara á biðlista. En við gerum ekki ráð fyrir öðru en að það muni bætast töluvert við biðlista,“ segir Páll.

Biðlar til deiluaðila um að leysa kjaradeilu

Atkvæðagreiðslu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um verkfallsboðun lýkur á morgun. Páll segir að áhrif verkfalls á starfsemi spítalans yrðu gríðarlega skaðleg. „Við biðlum til deiluaðila að finna lausn á þessari deilu. Það er löngu tímabært,“ segir Páll.