Kína og Bandaríkin deila um farþegaflug

04.06.2020 - 04:28
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Bandaríkjastjórn ætlar að banna kínverskum flugfélögum að fljúga til Bandaríkjanna um ótilgetinn tíma frá 16. júní. Samgönguráðuneyti Bandaríkjanna greindi frá þessu í gærkvöld, og sagði þetta í refsiskyni fyrir ákvörðun stjórnvalda í Peking að banna bandarískum flugfélögum að fljúga til Kína. Kórónuveirufaraldurinn er í rénun í Kína en tilfellum heldur áfram að fjölga verulega í Bandaríkjunum um þessar mundir.

Kínversk stjórnvöld ákváðu í mars að bæði innlend og erlend flugfélög mættu ekki fljúga oftar en einu sinni í viku til og frá Kína. Bandaríska samgönguráðuneytið segir ákvörðunina í mars í raun hafa stöðvað ferðir bandarískra flugfélaga, eftir að þau hættu sjálf flugi á milli landanna í febrúar vegna faraldursins. Bandarísk flugfélög óskuðu eftir því í vikunni að fá að hefja aftur ferðir á milli Bandaríkjanna og Kína, sem Kína hafnaði. Ráðuneytið segir það brot gegn flugsamgöngusamningi ríkjanna sem undirritaður var árið 1980.

Kínverjar bregðast við

Stjórnvöld í Kína tilkynntu svo í morgun að þau ætli að leyfa öllum erlendum flugfélögum sem ekki var minnst á í tilkynningunni í mars að hefja flug til og frá Kína aftur, með takmörkunum. Félögin fá að fara eina ferð í viku. Sýni verða tekin úr farþegum við komuna til landsins. Ef allir farþegar greinast neikvæðir við COVID-19 þrjár vikur í röð, fá félögin að bæta við einu áætlunarflugi á viku. Reynist hins vegar fimm eða fleiri farþegar með COVID-19 verður ferðum viðkomandi flugfélags frestað um viku í það minnsta. Þetta á við um bæði innlend og erlend flugfélög, hefur AFP fréttastofan eftir flugmálayfirvöldum í Kína.

Viðskipta- og ímyndarstríð

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á eftir að undirrita ákvörðun samgönguráðuneytisins til þess að hún taki gildi. Stjórnvöld ríkjanna hafa staðið í stappi síðustu ár. Þau hafa átt í hörðu viðskiptastríði, sem virtist vera að þokast í átt að samkomulagi þegar kórónuveirufaraldurinn skall á. Síðan hafa samskipti ríkjanna stirðnað enn frekar, meðal annars vegna þess að Bandaríkjaforseti kennir Kínverjum um hvernig faraldurinn hefur farið með þjóð sína. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi