Gæsluvarðhald vegna heimilisofbeldis fellt úr gildi

04.06.2020 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur felldi í dag úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir tvítugum karlmanni sem var handtekinn fyrir heimilisofbeldi síðustu helgi. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði úrskurðað manninn í gæsluvarðhald til 26. júní á grundvelli almannahagsmuna en sá úrskurður var kærður til Landsréttar.

Maðurinn var á reynslulausn þegar hann var handtekinn fyrir ofbeldi gegn manneskju sem tengist honum fjölskylduböndum. Í mars var hann dæmdur í tólf mánaða fangelsi fyrir líkamsárás gegn sautján ára fyrrverandi kærustu sinni. Réttarmeinafræðingur taldi árásina hafa verið mjög grófa og harkalega og að stúlkan hefði getað verið í lífshættu meðan á henni stóð. Hann var einnig dæmdur fyrir að hóta annarri stúlku, barnsmóður sinni.

Héraðsdómur Reykjavíkur sagði árásina gegn stúlkunni hafa verið einstaklega grófa og borið vott um algjört skeytingarleysi gagnvart lífi hennar.

Maðurinn fékk tólf mánaða fangelsi og horfði dómurinn meðal annars til ungs aldurs hans. Dómurinn þótti nokkuð vægur og ákvað ríkissaksóknari að áfrýja honum til Landsréttar. Maðurinn hafði afplánað næstum hálfan dóminn í gæsluvarðhaldi og losnaði úr haldi stuttu eftir að hann var kveðinn upp. 

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi