Frumkvæði Íslands varpar ljósi á mikil mannréttindabrot

04.06.2020 - 12:05
epa06287815 A handout photo made available by the Presidential Photographers Division (PPD) shows President Rodrigo Duterte (C) inspecting an AK-74M Kalashnikov Rifle donated by the Russian Federation during the ceremonial turnover onboard the Russian anti-submarine ship Admiral Panteleev at a port in Manila, Philippines, 25 October 2017.  EPA-EFE/PPD / ROBINSON NINAL JR. / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - PPD
Meiri áhersla er lögð á að heyja stríð gegn fíkniefnum í nafni þjóðaröryggis á Filippseyjum, en að virða mannréttindi, og erfitt getur reynst að vinda ofan af þeirri þróun. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem unnin var að frumkvæði Íslands.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hóf rannsókn á stöðu mannréttinda á Filippseyjum og skilaði niðurstöðum í dag. Rannsóknin var unnin að tillögu Íslands í ráðinu, sem varð til þess að stjórnvöld á Filippseyjum sökuðu Íslendinga meðal annars um að vera hræsnara sem borðuðu bara ís og hótuðu að slíta stjórnmálasambandi við Ísland. 

Ekkert varð þó af því, rannsóknin var gerð og varpar ljósi á ítrekuð og skipulögð mannréttindabrot á Filippseyjum. Í skýrslunni er bent á að eftir að Rodrigo Duterte var kjörinn forseti árið 2016 var auknu harð-ræði beitt í nafni stríðs gegn fíkniefnum. Samkvæmt opinberum gögnum hafa að minnsta kosti 8.663 verið drepnir í aðgerðum yfirvalda, en sú tala er talin geta verið allt að þrefalt hærri. 

Forsetinn sagður vernda lögreglumenn

Stjórnvöld hafa ávallt neitað því að lögreglu sé heimilt að drepa fólk í baráttunni gegn fíkniefnum, en aðeins einu sinni hafa lögreglumenn verið ákærðir fyrir slík morð. Forsetinn sjálfur hefur verið sakaður um að koma í veg fyrir að lögreglumenn verði sóttir til saka fyrir harðræði eða morð.

Þá eru áætlanir um að endurvekja dauðarefsingu og útvíkka skilgreiningu á hryðjuverkum til þess að hægt sé að réttlæta harðar aðgerðir meðal þess sem gengur gegn mannréttindum í landinu.

Þó er bent á að jákvæð skref hafi verið tekin á sumum sviðum, meðal annars er varða efnahagsleg og félagsleg réttindi. Niðurstaða rannsóknarinnar er engu að síður sú að lítið traust er á milli stjórnvalda og almennings vegna aðgerða sem brjóta í bága við lög og mannréttindi. Til þess að endurbyggja það traust þurfi fyrst og fremst að auka gagnsæi og draga stjórnvöld til ábyrgðar á brotum sínum.

Skýrsluna í heild sinni má sjá hér.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi