Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Floyd hafði greinst með kórónuveiruna

04.06.2020 - 06:31
epa08464037 People hold placards during a protest over the arrest in Minnesota of George Floyd, who later died in police custody, in Oakland, California, USA, 03 June 2020. A bystander's video posted online on 25 May, appeared to show George Floyd, 46, pleading with arresting officers that he couldn't breathe as an officer knelt on his neck. The unarmed black man later died in police custody.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
George Floyd, sem var drepinn af lögreglumanni í Minnesota í Bandaríkjunum í síðustu viku, var með kórónuveiruna sem veldur COVID-19. Þetta kemur fram í lokaskýrslu réttarmeinafræðings sem krufði lík hans. Floyd greindist með veiruna í apríl. Hann sýndi engin einkenni COVID-19 og sjúkdómurinn átti ekki þátt í dauða hans. 

Floyd kafnaði í haldi lögreglu, samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings í Hennepin-sýslu. Hann hlaut neyðaraðstoð á staðnum og á sjúkrahúsi en endurlífgunartilraunir skiluðu engum árangri.

Fjölskylda Floyds krafðist einnig óháðrar krufningar á líki hans. Niðurstöður beggja krufninga er að lögreglan drap Floyd. Í skýrslu hins opinbera segir að fíkniefni hafi fundist í blóði Floyds, auk þess sem hann hafi verið með hjartasjúkdóm. Ekkert slíkt er í óháðu skýrslunni sem fjölskylda hans lét gera. 

Saksóknari í Minnesota breytti í gær ákæru gegn lögreglumanninum sem varð Floyd að bana. Hann er nú ákærður fyrir morð í stað manndráps af gáleysi. Eins eru hinir þrír lögreglumennirnir, sem stóðu aðgerðalausir á meðan Floyd kafnaði, ákærðir fyrir sinn hlut í málinu.

Friðsöm mótmæli í Bandaríkjunum í gær

Dauða Floyds var mótmælt áfram í Bandaríkjunum í gærkvöld. Engar fregnir hafa borist af óeirðum, en lögregla handtók nærri hundrað manns í New York. Víða beitti lögregla piparúða og reyksprengjum á mótmælendur. Samkvæmt fréttum af vettvangi fóru mótmælin í gærkvöld að langmestu leyti friðsamlega fram. Víða virtu mótmælendur útgöngubann að vettugi, og héldu friðsömum mótmælum áfram. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV