
Floyd hafði greinst með kórónuveiruna
Floyd kafnaði í haldi lögreglu, samkvæmt skýrslu réttarmeinafræðings í Hennepin-sýslu. Hann hlaut neyðaraðstoð á staðnum og á sjúkrahúsi en endurlífgunartilraunir skiluðu engum árangri.
Fjölskylda Floyds krafðist einnig óháðrar krufningar á líki hans. Niðurstöður beggja krufninga er að lögreglan drap Floyd. Í skýrslu hins opinbera segir að fíkniefni hafi fundist í blóði Floyds, auk þess sem hann hafi verið með hjartasjúkdóm. Ekkert slíkt er í óháðu skýrslunni sem fjölskylda hans lét gera.
Saksóknari í Minnesota breytti í gær ákæru gegn lögreglumanninum sem varð Floyd að bana. Hann er nú ákærður fyrir morð í stað manndráps af gáleysi. Eins eru hinir þrír lögreglumennirnir, sem stóðu aðgerðalausir á meðan Floyd kafnaði, ákærðir fyrir sinn hlut í málinu.
Friðsöm mótmæli í Bandaríkjunum í gær
Dauða Floyds var mótmælt áfram í Bandaríkjunum í gærkvöld. Engar fregnir hafa borist af óeirðum, en lögregla handtók nærri hundrað manns í New York. Víða beitti lögregla piparúða og reyksprengjum á mótmælendur. Samkvæmt fréttum af vettvangi fóru mótmælin í gærkvöld að langmestu leyti friðsamlega fram. Víða virtu mótmælendur útgöngubann að vettugi, og héldu friðsömum mótmælum áfram.