Ætlar að beita málskotsréttinum sparlega
Málskotsréttur forseta er ekki lengur dauður bókstafur í íslensku stjórnarskránni. Guðmundur Franklín Jónsson hefur sagt að hann fari gegn Guðna Th. með málskotsréttinn að vopni. Hann sagði í gær að það ætti að beita honum sparlega en forsetinn ætti hiklaust að gera það þegar myndast hefði gjá á milli þjóðar og þings.
“Hann sagði að forsetinn væri þjóðkjörinn og það er alveg rétt. Þess vegna sá hann fyrir sér svona eiginlega sinn vilja og vilja þjóðarinnar. Við verðum að átta okkur á því að langfæstir íslenskra forseta hafa verið kjörnir með meirihluta atkvæðisbærra manna. Raunverulega bara einn forseti sem var meirihluta í fyrsta sinn sem hann var kjörinn. Það var Kristján Eldjárn,“ segir Guðmundur.
Hann segir að eftir að Ólafur Ragnar Grímsson beitti málskotsréttinum séu engar takmarkanir settar forsetanum.
„Þannig að forsetinn getur þar með synjað öllum lögum undirskriftar hvort sem það eru fjárlög eða önnur lög. Það yrði kannski upplausn í samfélaginu ef forsetinn beitti þessu mjög oft. Guðmundur Franklín ætlar að gera það sparlega en þá eru engar reglur til leiðsagnar um hvað það þýðir. Það er þessi djúpa gjá milli þings og þjóðar sem oft er talað um og ég held að það sé hægt að halda því fram að það hafi átt sér stað í Icesave-málunum.“ Hann segir að hægt sé að benda á ýmis önnur mál sem þetta eigi við um. „Þannig að sparlega og ekki sparlega er algjörlega opin bók. Að hlusta á Guðmund Franklín þá virtist mér að hann ætlaði fyrst og fremst að beita þessum málskotsrétti í málum sem hann hafði verulegan áhuga á sem er kannski ekki óeðlilegt,“ segir Guðmundur.
Getur beðið þingmann að leggja fram frumvarp
Guðmundur Franklín sagði í Speglinum að hann ætlaði að virkja 25. gr. stjórnarskrárinnar um að forsetinn gæti látið leggja fram frumvarp. Hann ætlaði að gera það til að lagt yrði fram frumvarp um að lækka laun forsetans um helming. Ákvæðið hefur hins vegar verið túlkað þannig að það eigi við um öll stjórnarfrumvörp. Guðmundur Hálfdánarson segir að forsetinn hafi ekki rétt til að leggja sjálfur fram frumvarp. Hann verði að láta einhvern þingmann gera það. Það geti reyndar hver sem er líka gert.
„En auðvitað getur forsetinn talað við einhvern þingmann og beðið hann um að leggja fram frumvarp. Það er ekkert sem bannar það.“
Vill stíga fastar inni í kerfið
Guðmundur Franklín segir að forsetinn eigi ekki að vera til skrauts. Nafni hans Guðmundur Hálfdánarson segist skilja hvað hann eigi við og að þetta hafi heyrst áður. Það sé vegna þess að forsetinn hafi engin völd og að embættið sé fyrst og fremst embætti fyrir athafnir, að klippa á borða og halda ræður 17. júní. Hann segir að að hluta til sé embættið þannig, eins og embætti kónga og drottninga.
„Hann vill greinilega að forsetinn stígi miklu fastar inn í kerfið og fari þá að beita sér með beinum hætti. Það er auðvitað í sjálfu sér að mörgu leyti eðlileg krafa vegna þess að þetta er þjóðkjörið embætti. Fyrst að svo er þá er kannski ekkert óeðlilegt að mönnum finnist að það eigi fylgja því einhver völd,“ segir Guðmundur.
Stjórnarskráin endurspegli raunverulegt vald forseta
Eins og stjórnarskráin sé skrifuð sé ekki gert ráð fyrir því vegna þess að þetta sé raunverulega konungsembætti sem sé skrifað inni í stjórnarskrána. Allt frá því að stjórnarskráin var samin hafi staðið til að endurskoða hana og laga hana að íslenskum aðstæðum.
„Þetta var reynt áratugum saman og á endanum sprungu menn á limminu og hafa hreinlega ekki komist í það. Stjórnarskránni hefur verið breytt mjög mikið í gegnum tíðina. Allur mannréttindakaflinn er tiltölulega nýr, en þessi kjarnaákvæði í stjórnarskránni um forsetann eru enn óbreytt. Það er margt skrýtið í þeim og margt mjög sérkennilegt. Ég held að það sé kominn tími til að Íslendingar taki afstöðu til þess hvernig við viljum hafa þetta og skrifa stjórnarskrána með þeim hætti að hún endurspegli raunverulegt vald forsetans. Ekki bara að menn reikni með því að forsetaembætti sé eftir einhverjum hefðum sem eru algjörlega óskrifaðar,“ segir Guðmundur.