Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Namibía leitar til Interpol vegna Samherjaskjalanna

03.06.2020 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/Confidente
Namibísk yfirvöld hafa óskað eftir aðstoð Interpol við rannsókn á Samherjaskjölunum í níu löndum, meðal annars á Íslandi og í Noregi. Þetta kemur fram á vef namibíska fjölmiðilsins Informante. Mennirnir sex sem eru ákærðir í málinu, verða ekki látnir lausir.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, staðfestir í samtali við fréttastofu að embættið hafi verið í samskiptum við Interpol. Hann gæti þó ekki tjáð sig neitt frekar um málið.

Á vef Informante kemur fram að mennirnir hafi krafist þess að vera sleppt þar sem ekkert væri vitað hvenær rannsókn yfirvalda myndi ljúka.  Hún hefði staðið yfir síðan 2014.

Dómari hafnaði kröfum þeirra og fyrirskipaði að þeir skyldu vera áfram í varðhaldi næstu þrjá mánuði eða þar til málið verður tekið fyrir aftur þann 28. ágúst. 

Saksóknari í málinu sagði rannsóknina hafa tafist, meðal annars vegna þess hversu flókin hún væri og þá hefði kórónuveirufaraldurinn og ferðatakmarkanir vegna farsóttarinnar sett strik í reikninginn.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, hefur sagt við fréttastofu að nokkrar réttarbeiðnir hafi borist frá Namibíu og þær séu í sínum farvegi. Þá hafi hann verið í samskiptum við ríkissaksóknaraembættið í Namibíu. 

Þá kemur fram í frétt Informante að einn sjömenninganna, Mike Nghipunya sem er fyrrverandi forstjóri Fischor, hafi einnig verið ákærður fyrir manndráp af gáleysi. Hann er sagður hafa verið valdur að banaslysi árið 2017 og ekki tilkynnt það til yfirvalda.