Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Maðurinn var kunnugur konunum

03.06.2020 - 22:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Maðurinn sem ákærður er fyrir að hafa nauðgað tveimur eldri konum, sem eru með Alzheimer á lokastigi, var kunnugur konunum. Þær bjuggu í íbúðum fyrir eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu þegar maðurinn braut gegn þeim en samkvæmt heimildum fréttastofu hafði maðurinn búið þar áður og þekkti því til þeirra.

Konurnar eru um áttrætt en maðurinn um sjötugt. Í ákæru sem fréttastofa greindi fyrst frá í gær segir að maðurinn hafi notfært sér að konurnar væru með alzheimer sjúkdóm á háu stigi og hefðu þess vegna ekki getað spornað við verknaðinum eða skilið þýðingu hans.

Ákæran var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í maí en var gefin út í byrjun apríl. Konurnar krefjast þess að maðurinn verði dæmdur til að greiða þeim tvær milljónir hvorri um sig í miskabætur.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV