Lögregla rann á lyktina og fann tugi kílóa af kannabis

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ�
Tveir menn, Íslendingur og erlendur karlmaður, sátu í gæsluvarðhaldi og einangrun í lok síðasta mánaðar eftir að lögreglan á Selfossi kom upp um þurrkun kannabisefna í sumarbústað í uppsveitum Árnessýslu. Talið er að mennirnir hafi tekið bústaðinn á leigu í gegnum Airbnb. Lagt var hald á tugi kílóa af kannabisefnum. Mennirnir eru lausir úr haldi en útlendingurinn hefur verið úrskurðaður í farbann fram í ágúst.

Í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Suðurlands kemur fram að lögreglan hafi knúið dyra í bústaðnum. Tveir menn hafi komið til dyra og segir í úrskurðinum að kannabisþef hafi lagt frá húsinu.  Við nánari skoðun kom í ljós að verið var að koma upp þurrkaðstöðu fyrir kannabis.

Á bílastæði við bústaðinn var sendiferðabíll og í honum tæki og tól til kannabisframleiðslu.  Mennirnir voru í framhaldinu handteknir og færðir til skýrslutöku og bíllinn tekinn til frekari skoðunar á lögreglustöðinni á Selfossi. Þar fundust tugir kílóa af kannabisefnum í þremur stórum plastkössum.

Erlendi maðurinn neitaði við skýrslutöku að hafa verið kunnugt um fíkniefnin í bílnum. Hann þekkti Íslendinginn en tilgangur ferðar hans hafi verið að skoða sumarhús, borða þar og halda svo aftur heim. Íslendingurinn neitaði hins vegar að tjá sig um sakarefnin.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, segir í samtali við fréttastofu að málið enn í rannsókn. Mennirnir séu lausir úr haldi þar sem ekki hafi þótt ástæða til að framlengja gæsluvarðhaldið. Erlendi maðurinn hafi þó verið úrskurðaður í farbann fram í ágúst.  Hann segir að eigandi bústaðarins sé ekki grunaður um aðild að brotinu enda hafi sumarhúsið verið tekið á leigu í gegnum Airbnb.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi