Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kóviti, kóvítið og kófið

Mynd: Þór Ægisson / RÚV

Kóviti, kóvítið og kófið

03.06.2020 - 20:04

Höfundar

Gósentíð orðasmiða var í kófinu eða kórónuveirufaraldrinum. Málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins segir að mörg margsamsett orð hafi orðið til. Þá hafi almenningur verið duglegur í nýyrðasmíðinni.

Kórónuveirufaraldurinn hefur ekki bara snúist um sóttvarnir og aðgerðir heilbrigðisyfirvalda heldur hann líka haft áhrif á íslenska tungu.

„Ég myndi segja að það hafi aðallega verið gífurleg virkni. Virkni í orðmyndun,“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttir, málfarsráðunautur Ríkisútvarpsins.

Fræðingar voru duglegir að reiða fram orð.

„En svo er líka mjög áhugavert það sem varð svo áberandi sem kallast virk orðmyndun. Það er bara þegar við öll sem tölum þetta mál búum til orð af því að þörfin fyrir þau sprettur upp. Það eru orð eins og kóviti sem var mjög áberandi fljótlega eftir að faraldurinn fór af stað sem merkir að vera sjálfskipaður eða sjálflærður sérfræðingur í COVID-19 sem voru býsna margir,“ segir Anna.

Svo eru það orð eins og

 • kófið
 • smitskömm
 • smitrakningarapp
 • samkomubann
 • einangrun
 • úrvinnslusóttkví
 • kóvítið
 • og svo það sé nú ekki minnst á fordæmalausa tíma.

„Fordæmalaust sem er nú gamalt orð í málinu og varð allt í einu á allra vörum en hvarf svo mjög skyndilega aftur af því að það var svolítið gert grín að því að það var allt orðið fordæmalaust,“ segir Anna.

Þá tók dálítinn tíma að finna út hvað væri nú best að kalla veiruna. Þannig var hún í fréttum RÚV kölluð:

 • nýja veiran
 • kórónaveiran
 • Wuhan-veiran
 • Wuhan-kórónaveiran
 • COVID-19 veiran
 • og loks kórónuveiran.

En hvað skyldi vera lengsta orð þessa faraldurs? Smitrakningarteymi  eru átján stafir, sýnatökupinnaskortur 20 stafir en sjálfur kórónuveirufaraldurinn (22 stafir) á líklega vinninginn.

„Það má nú eiginlega segja að það sé kannski eitt af því sem einkenndi orðmyndunarvirknina í þessum faraldri það eru þessi löngu samsettu orð, það eru margsamsett orð. Kannski ræðst það af því að við erum alltaf að reyna að búa til eitt orð yfir alla hluti og þá verða stundum til mjög löng og mjög óþjál orð,“ segir Anna.

Og fólk vildi orð yfir þau fyrirmæli að halda sig í ákveðinni fjarlægð frá öðrum. 

„Íðorðanefnd læknafélagsins mælti með samskiptafjarlægð. Það féll ekki í góðan jarðveg. Og það var talað um nándarmörk og ýmislegt fleira. En ég held að það hafi fyrst og fremst verið verslunareigendur sem settu upp merkingar í búðum sínum sem tóku að tala um tveggja metra regluna og kannski almenningur líka. Þetta var eitthvað sem spratt upp í grasrótinni þetta hugtak: tveggja metra regla. Þrjú orð. Það er oft hægt að segja hlutina í nokkrum orðum,“ segir Anna.

Og nýyrðasmíðin blómstraði.

„En það má kannski segja að þetta hafi verið svolítil gósentíð fyrir orðasmiði,“ segir Anna Sigríður.

 

Tengdar fréttir

Samgöngumál

Umferðin breyttist við sönginn

Klassísk tónlist

Vilja leggja eitthvað til baðstofumenningar í „kófinu“

Sjónvarp

Skrautlegustu augnablikin úr kófinu