Kirkjuleiðtogar gagnrýna Trump

03.06.2020 - 02:12
epa08460872 US President Donald J. Trump and First lady Melania Trump visit Saint John Paul II National Shrine, in Washington, DC, USA, 02 June 2020.  EPA-EFE/CHRIS KLEPONIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images POOL
Leiðtogar innan bandarísku biskupakirkjunnar og kaþólsku kirkjunnar eru mjög ósáttir við hvernig Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, notaði biblíuna í fyrrakvöld. Mariann Budde, biskup við biskupakirkjuna í Washington-borg, sagði í samtali við útvarpsstöðina NPR í gær að hegðun forsetans hafi verið óhugnanleg og mjög særandi. Hann hafi misnotað helgan grip í pólitískum tilgangi.

Trump gekk fylktu liði að biskupakirkju heilags Jóhannesar í fyrrakvöld. Kirkjan er beint á móti Hvíta húsinu. Lögregla beitti piparúða, táragasi og reyksprengjum til þess að koma friðsömum mótmælendum úr vegi til þess að greiða leið forsetans. Budde segir enga ástæðu hafa verið fyrir lögreglu að beita slíku ofbeldi gegn mótmælendum, enda hafi mótmælin verið friðsöm að öllu leyti. Aðrir leiðtogar biskupakirkjunnar hafa lýst reiði sinni vegna þessarar göngu forsetans. Myndatakan við kirkjuna hafi verið mikil vanvirðing. 

Jóhannes Páll hefði aldrei samþykkt þetta

Í gær fóru forsetinn og eiginkona hans, Melania Trump, svo að minnismerki Jóhannesar Páls páfa. Wilton Gregory, erkibiskup kaþólsku kirkjunnar í Washington-borg, sagðist eiga erfitt með að skilja að hægt væri að misnota staði á vegum kaþólsku kirkjunnar á veg sem gengur gegn kennisetningum trúarinnar. Jóhannes Páll hefði svo sannarlega ekki samþykkt beitingu táragass eða annarra leiða til þess að þagga niður í röddum fólks, í þeim tilgangi að ná ljósmynd við reit sem er helgaður trúariðkun og friði.

Hundruð þúsunda Bandaríkjamanna mótmæla áfram kerfisbundnum kynþáttafordómum í Bandaríkjunum. Vika er síðan mótmælin hófust, eftir að blökkumaðurinn George Floyd var drepinn af lögreglu í Minneapolis. Mótmælin hafa að mestu leyti verið friðsöm, en óeirðir hafa orðið í nokkrum borgum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi