Johnson býður Hong Kong búa velkomna til Bretlands

03.06.2020 - 03:38
Erlent · Bretland · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa08457958 Buildings in Kowloon and Hong Kong island are seen from a viewing platform overlooking Victoria Harbour in Hong Kong, China, 01 June 2020. Hong Kong tourism industry has been hit hard by months of anti-government protests last year and the travel restrictions imposed to contain the COVID-19 pandemic this year.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir íbúa Hong Kong eiga greiða leið til Bretlands ef Kínverjar ákveða að fullgilda ný lög um þjóðaröryggi í héraðinu. Hong Kong búar geta jafnvel orðið breskir ríkisborgarar, ílengist þeir í landinu.

Grein eftir Johnson birtist bæði í breska dagblaðinu Times og South China Morning Post í Kína. Þar segir hann að margir íbúa Hong Kong óttist að réttindi þeirra skerðist ef kínverska stjórnin fullgildir lög sem voru samþykkt á þinginu í síðasta mánuði. Hann segir Breta bera þá skyldu að veita Hong Kong-búum annan möguleika ef lögin öðlast gildi. 

Á við um nærri þrjár milljónir

Um 350 þúsund íbúar Hong Kong eru með bresk vegabréf. Þau veita þeim rétt til sex mánaða dvalar í Bretlandi án vegabréfsáritunar. Um tvær og hálf milljón til viðbótar geta sótt um slíkt vegabréf að sögn Johnson. Ef Kínverjar innleiða lögin ætla Bretar að breyta innflytjendalögum sínum. Þá fá allir með vegabréf frá Hong Kong tólf mánaða dvalarleyfi í Bretlandi, með möguleika á framlengingu, auk starfsleyfis og fleiri réttinda. Það gæti markað leið þeirra að breskum ríkisborgararétti.

Óttast skert réttindi og frelsi

Lögin sem samþykkt voru á kínverska þinginu kveða á um bann við hvers kyns niðurrifsstarfsemi og uppreisnaráróðri í Hong Kong. Íbúar héraðsins óttast að með lögunum verði úti um sjálfsstjórn þess samkvæmt eitt ríki, tvö kerfi stefnunni sem samþykkt var árið 1997. Þá gerðu Bretar og Kínverjar með sér samkomulag sem á að vera í gildi til 2047. Þar er kveðið á um ákveðna sjálfsstjórn Hong Kong, þó héraðið sé undir yfirráðum Kína. Þannig hafa íbúar Hong Kong notið meiri réttinda og frelsis en aðrir Kínverjar, og óttast héraðsbúar að það verði úti um þau þegar nýju lögin taka gildi.

Johnson segir í grein sinni að hann vonist til þess að ekki þurfi að koma til lagabreytinganna á Bretlandi. Hann segir Breta ekki vilja koma í veg fyrir vöxt Kínverja.  Hann vonast til þess að Kínverjar vilji það sama og Bretar, að Hong Kong dafni undir eitt ríki, tvö kerfi stefnunni. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi