Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hólasandslína samþykkt í Skútustaðahreppi

03.06.2020 - 17:20
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet
Skútustaðahreppur hefur samþykkt framkvæmdaleyfi fyrir Hólasandslínu 3. Ósamið er við hin þrjú sveitarfélögin sem línan liggur í gegnum. Línan fer um tæplega 50 jarðir frá Hólasandi til Akureyrar.

Sveitarstjórn Skútustaðahrepps ákvað á síðasta fundi sínum að samþykkja umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi vegna Hólasandslínu og er þar með fyrsta sveitarfélagið sem gefur út framkvæmdaleyfi vegna línunnar.  

Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingarfulltrúi Landsnets, segir Þingeyjarsveit bíða staðfestingar Skipulagsstofunnar vegna aðalskipulags og þegar það liggi fyrir muni fyrirtækið sækja um framkvæmdaleyfi. Hinsvegar þurfi að ljúka samningum við landeigendur í Eyjarfjarðarsveit og Akureyrarbæ, áður en hægt verði að sækja um framkvæmdaleyfi þar. 

Hólasandslína fer um tæplega 50 jarðir frá Hólasandi til Akureyrar. Þannig liggur línan um jarðir í Laxárdal, Reykjadal, Bárðardal, Fnjóskadal og Eyjafirði. Engin möstur verða í Laxárdal, þar sem línan fer um verndarsvæði Mývatns og Laxár, heldur verður 1000 metra haf yfir dalinn. Þá verður 10 kílómetra langur jarðstengur í Eyjarfirði.

Verkið allt er í útboðsferli, að sögn Steinunnar. Á fimmtudaginn verða opnuð tilboð í slóðagerð og jarðvinnu, en síðar í rafbúnað, spenna og strengi. „Ef allt gengur að óskum reiknum við með að hefja framkvæmdir síðsumars,“ segir hún.