Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

George Floyd, martröðin og sannleiksveiran

Mynd: EPA / EPA

George Floyd, martröðin og sannleiksveiran

03.06.2020 - 13:33

Höfundar

„Ég vona að við mótmælum morðinu á George Floyd, við stöndum saman og höfnum kerfislægum rasisma um allan heim og við mótmælum hatursþjóðfélaginu,“ segir Halldór Armand Ásgeirsson sem telur að heimsfaraldurinn hafi magnað upp það óréttlæti sem fyrir var í samfélögum.

Halldór Armand Ásgeirsson skrifar:

Einhverju sinni borgaði ég fyrir kaffibolla í Berlínarborg með fimm evru seðli. „Hann er falsaður,“ sagði vinkona mín sem afgreiddi mig. „Það er ákveðin mafíuhreyfing hér í Neukölln sem falsar bæði fimm og tuttugu evru seðla.“ Þetta var hárrétt hjá henni. Seðillinn var augljóslega falsaður þegar maður skoðaði hann betur. Ég hafði fengið peningaseðilinn til baka kvöldið áður þegar ég hafði keypt mér kebab.

Ég skammaðist mín ferlega fyrir þetta en sem betur fer kom ég mjög reglulega á þetta kaffihús, þekkti starfsfólkið og því kom ekki til hugar að það hefði verið viljaverk hjá mér að reiða fram falsaða peninga. Ég fann annan seðil, borgaði og kvaddi. Eftir þetta fór ég bara heim til mín. Það sem gerðist ekki var eftirfarandi: Það var ekki hringt á lögregluna, lögreglan kom ekki á staðinn og dró mig eftir gangstéttinni, handjárnaði mig og myrti mig síðan með því að þrýsta hnénu á öndunarfæri mín í 9 mínútur. 

Þetta er hins vegar það sem kom fyrir George Floyd um hábjartan dag í Minneapolis þann 25. maí síðastliðinn. Ég veit ekki mikið um Floyd. Ég veit að hann missti vinnuna vegna Covid-19, ég veit að starfsmaður í búð hringdi á lögregluna þennan dag vegna þess að Floyd átti að hafa borgað fyrir sígarettur með fölsuðum 20 dollara seðli. Síðan veit ég bara það sem sést á myndbandinu af því sem gerðist svo. Lögreglan kemur á staðinn, dregur Floyd út úr bílnum hans fyrir utan búðina og myrðir hann síðan á gangstéttinni. Floyd segir ítrekað að hann geti ekki andað þegar lögreglumaðurinn, sem er hvítur, þrýstir hné sínu á háls hans. Lögreglumaðurinn linnir ekki einu sinni þrýstingnum eftir að Floyd missir augljóslega meðvitund og hættir að sýna nokkurt lífsmark. 

Jim Crow-réttarkerfið 

Myndbandið af dauða George Floyd er algjör hryllingur. Og það sem gerir þá lífsreynslu að horfa á myndbandið svo ægilega er að áhorfandinn fær á tilfinninguna að hann sé í návist einhvers konar yfirvegaðrar og kerfislægrar illsku. Ég veit ekki hvernig ég að lýsa því öðruvísi. Það er einhvern veginn róin yfir þessu manndrápi sem gerði það að verkum að þegar ég sá myndbandið sama dag og það var gert opinbert hugsaði ég með mér að það gæti heil borgarastyrjöld brotist út bara út af þessu eina myndbandi. 

Þarna er ríkisvaldið að deyða fátækling úr minnihlutahópi algjörlega án tilefnis og kuldinn, staðfestan og yfirvegunin í því er svo ótvíræð og grímulaus að það er eins og öll samfélagsgjáin komi í ljós. Þessi yfirgengilegi ójöfnuður, misréttið, kynþáttahatrið, hatrið á fátækum, það hvernig ríkisvaldið verndar stórkapítal, gefur því auðlindir almennings og skattfé, lætur þá sem minnst mega sín algjörlega afskipta, neitar þeim um heilbrigðisþjónustu og drepur þá síðan um hábjartan dag úti á götu fyrir engar sakir. Þetta er einhvern veginn allt í þessu myndbandi. 

Kerfislægur rasismi er vitaskuld alvarlegt samfélagsmein í Bandaríkjunum og má í þeim efnum minnast á metsölubókina The New Jim Crow: Mass Incarceration in the Time of Colurblindness frá árinu 2010 eftir Michelle Alexander. Í bókinni sýnir hún fram á það hvernig massafangelsisdómar yfir svörtum karlmönnum í Bandaríkjunum og það hvernig þeir eru kerfisbundið sviptir borgaralegum réttindum sínum gegnum dómskerfið hefur í raun tekið við sem hið nýja Jim Crow-fyrirkomulag. Aðskilnaðarlögin í Bandaríkjunum, sem felld voru úr gildi á sjöunda áratugnum, voru kennd við Jim Crow.

Sannleiksveiran opinberar veikindi samfélaga

Covid-veiran hefur lagst þungt á samfélög svartra í Bandaríkjunum. Þótt svartir séu aðeins um 14% bandarísku þjóðarinnar eru allt upp í 30% þeirra sem hafa smitast af veirunni skæðu svartir. Um einn af hverjum 2.000 svörtum Bandaríkjamönnum hafa látist af völdum veirunnar. Það er vegna þess að þótt veiran fari kannski ekki í manngreinarálit, þá gera mannleg samfélög það. Hátt hlutfall þeirra sem eru í svonefndum framlínustörfum eru svartir og það gerir þá vitaskuld berskjaldaðri fyrir veirunni. Þessi störf eru sömuleiðis jafnan láglaunastörf sem gerir að verkum að afleiðingar veirunnar eru alvarlegri. Ekki að það hafi haft einhver áhrif á það sem gerðist, en George Floyd missti vinnuna í Covid-faraldrinum. Í Bandaríkjunum er réttur þinn til heilbrigðisþjónustu bundinn við vinnuna þína. 

Ég hef ekki ennþá tekið þátt í mótmælunum sem brotist hafa út um víða veröld í kjölfar morðsins á George Floyd. Ég sé bara öll óteljandi myndböndin á netinu af því hvernig ríkisvaldið níðist á mótmælendum til að reyna að kveða ólguna niður. Það er hryllingur að horfa upp á þetta. En sömuleiðis er augljóst að fólk af öllum kynþáttum kemur og stendur saman gegn misréttinu. 

Og mig grunar að þetta sé stærra en svo að mótmælin og samstöðusamkomurnar snúist um lögregluofbeldi í Bandaríkjunum gegn svörtu fólki, þótt það sé vitaskuld rót þeirra. Mig grunar, án þess þó að ég þykist vita það, að fjölmenn mótmæli til dæmis í Nýja-Sjálandi í kjölfar morðsins snúist ekki beinlínis um það. Mig grunar að í kjarna mótmælanna um allan heim sé sameiginleg tilfinning fólks fyrir ójöfnuði, misrétti og hatri í garð fátækra, þar sem kerfislægt kynþáttahatur er ein augljósasta, ógeðfelldasta og alvarlegasta birtingarmyndin. Efnahagslegur ójöfnuður hefur nú náð svo epískum hæðum, gjáin milli hinna ríku og hinna fátæku er orðin svo ævintýraleg, hvort sem það tengist beinum lífsgæðum, launum, aðgangi að grunnþjónustu eða hreinlega borgaralegum réttindum, og Covid-veiran er sannleiksveira að því leyti að hún sýnir okkur svo vel hvernig hlutirnir eru í raun, hún opinberar svo skýrt hvað leynist undir yfirborðinu, alla veikleikana, allt misréttið, allt hatrið. Sannleiksveiran afhjúpar veikindi einstaklinga, en líka fyrirtækja, hagkerfa og samfélaga.

Gegn samfélagi sem ekki bara þolir hatur, heldur þrífst á því

Hin lífsglaða og falsjákvæða gríma markaðarins fellur og martröðin sem býr að baki þessu öllu saman kemur í ljós. Já, verið velkomin í martröðina. Ég held að þetta sé ástæða þess að myndbandið af morðinu á George Floyd hefur vakið svo gríðarleg viðbrögð. Lögregluofbeldið í Ameríku gegn svörtum er ekkert nýtt. Það hafa allir vitað af því um langa hríð. En það er eitthvað við þetta myndband, tímana sem við lifum á og sannleiksljós Covid-veirunnar. Það er einhver mjög djúpur sannleikur í þessu myndbandi sem fer ekki fram hjá nokkurri heilvita manneskju. 

Við sjáum hvítan mann með völd myrða svartan, valdalausan mann á viðbjóðslegan hátt. En við sjáum líka svo margt annað. Eða við vitum líka svo margt annað. Við vitum að fórnarlambið er fátæklingur. Við vitum að hann tilheyrir minnihlutahópi sem er miklu berskjaldaðri en aðrir fyrir banvænni veiru. Við vitum að hann missti vinnuna út af þessari sömu veiru. Við vitum að hann hefur þess vegna ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu. Við vitum að hann hefur ekki getað treyst á neina velferð. Við vitum að það er mjög líklegt að hans borgaralegu réttindi hafi áður verið skert gegnum dómskerfið. Við vitum að ríkisvaldið hefur líklega látið hann algjörlega afskiptan allt hans líf og látið eins og hann sé ekki til. Við vitum að þetta sama ríkisvald hefur gefið ríkasta fólkinu og stórfyrirtækjum óteljandi milljarða af sameiginlegum auðæfum samfélagsins sem hann er að nafninu til hluti af og séð til þess að gjáin milli hans og þeirra sem ráða samfélaginu verði sífellt breiðari. Og núna vitum við að þessu sama ríkisvaldi finnst sjálfsagt mál að myrða hann fyrir nákvæmlega engar sakir. Og við vitum líka að ekkert af þessu þurfti að vera svona. Að baki þessu öllu voru ákvarðanir, vilji og afstaða. Og við vitum að rasismi, hatur í garð tiltekinna hópa, hatur í garð fátækra er algjört grundvallarhráefni í því þjóðfélagsfyrirkomulagi sem hér er lýst og birtist í þessu myndbandi. 

Meginstraumsfjölmiðlar hafa venju samkvæmt fókuserað á að sýna myndbönd af gripdeildum, það er þegar mótmælendur brjótast inn í verslanir og stela þaðan vörum. Þetta er gert til þess að draga upp þá fölsku mynd að mótmælendur séu vitaskuld bara glæpalýður. Þeir fjalla hins vegar aldrei um það hvernig ríkiskapítalismi, sú samfélagsgerð sem svo stór hluti heimsbyggðarinnar þekkir svo vel, snýst ekki um neitt annað en skipulagðan þjófnað að ofan. Það er hins vegar þjófnaður sem fer ekki fram með því að brjóta rúður í Kringlunni heldur gegnum hið pólitíska kerfi. Það er hinn eini sanni þjófnaður.

Óeirðir eru einfaldlega eina rödd hinna raddlausu. Og slíkt kerfi grundvallast alltaf á hatri á hinum forsmáðu og fátæku. Til þess að gefa einum allt, þarftu að svipta annan öllu. Þjóðfélag sem snýst ekki um neitt annað en að gera hina ríku ríkari og voldugri, að gefa þeim allt, snýst líka um það að taka allt af fátæklingum og myrða þá síðan, þetta fer allt saman fram á kostnað annarra, þetta helst allt í hendur, það er hin hliðin á peningnum. Hér á Íslandi eru tugþúsundir útlendinga, sem margir hverjir vinna einmitt láglaunastörfin, já, framlínustörfin sem halda uppi ofurkjörum hálaunastéttanna. Þetta vita allir. En þetta fólk sést aldrei í meginstraumsfjölmiðlum og hefur enga rödd. Það er ósýnilegt.

Svo ég vona að við mótmælum morðinu á George Floyd, við stöndum saman og höfnum kerfislægum rasisma um allan heim og við mótmælum hatursþjóðfélaginu, við mótmælum samfélagi sem ekki bara lætur hatur á hinum raddlausu viðgangast, heldur er grundvallað á þessu hatri, og inniheldur þannig forskriftina að eigin tortímingu.

Tengdar fréttir

Segir mótmælin í Bandaríkjunum upphafið að byltingu

Menningarefni

Bækur og myndir til að kynna þér hvítu forréttindin þín

Norður Ameríka

Útgöngubann allar nætur í New York út vikuna

Myndlist

Síðustu orð Floyds svífa yfir borgum Bandaríkjanna