Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Gagnrýnt að aðstoðarmenn geti strax gegnt hagsmunagæslu

03.06.2020 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Gagnrýnt var á Alþingi í dag að í frumvarpi forsætisráðherra um hagsmunaskráningu séu aðstoðarmenn ráðherra undanskildir því ákvæði að þurfa að bíða í sex mánuði áður en þeir hefja störf hjá hagsmunasamtökum. Frumvarpið var afgreitt til þriðju umræðu á þingi í dag og til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mælti á Alþingi í dag fyrir lagafrumvarpi um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands.  Lögin ná til ráðherra, ráðuneytisstjóra, skrifstofustjóra og sendiherra í Stjórnarráði Íslands. Þá gilda lögin einnig um aðstoðarmenn ráðherra. Markmið laganna er að „takmarka eins og frekast er unnt áhrif hagsmunaárekstra á störf æðstu handhafa framkvæmdarvalds sem starfa innan Stjórnarráðs Íslands“.

Sigríður Á Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokkksins, var fyrst til að veita andsvar. Hún sagðist telja margt orka tvímælis eftir aðra umræðu um málið í gær. Málið mætti við meiri umfjöllun, að minnsta kosti í nefnd, að hennar mati. Hún sagðist því óska eftir því að málið fari aftur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og að Umboðsmaður barna komi fyrir nefndina til að ræða það að börnum sé blandað inn í hagsmunaskráningu. 

„Hjákátlegt“ að undanskilja ráðherra 

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði málið til bóta og að hún styðji það. Hún telji þó hjákátlegt að ríkisstjórnin undanskilji sjálfa sig frá eftirliti og reglum. Það sé ekki til að auka á trúverðugleika. Þá veki það furðu að ríkisstjórn hamli ekki aðstoðarmönnum að sækja um störf hjá hagsmunaaðilum eftir að þeir hætta störfum í ráðuneytum. Hún hvatti til þess að breytingatillögur þar að lútandi yrðu samþykktar. Þær voru hins vegar felldar. 

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sagði að fljótt á litið teldi hann að verði frumvarpið að lögum verði fyrstu áhrif þess að fæla fólk frá þingstörfum. Málið hefði gott af því að fara aftur til nefndar. Þá sagði hann að Miðflokkurinn ætlaði að sitja hjá í atkvæðagreiðslunni. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir málið byggja á vinnu hennar ráðuneytis og að horft hafi verið til þess hvernig málum væri háttað víða annars staðar. Frumvarpið bæti skráningu þeirra sem starfi í stjórnmálum og auki traust. Hún sagðist ekki sammála þeim þingmönnum sem töldu að hagsmunaskráning myndi fæla fólk frá því að sækjast eftir því að komast á þing. Það séu forréttindi að starfa á Alþingi og þeim störfum fylgi skyldur og kröfur um aukið gansæi og skráningu hagsmuna. Þetta sé jákvætt skref. 

Aðstoðarmenn líklegri en embættismenn til að ráða sig til starfa hjá hagsmunasamtökum

Nokkrar breytingartillögur voru teknar til afgreiðslu. Þórhildur Sunna talaði fyrir breytingartillögu um að það sama gildi um aðstoðarmenn og æðstu menn framkvæmdavaldsins að mega ekki fara til starfa hjá hagsmunaaðilum fyrr en sex mánuðum eftir að þeir hætta störfum í stjórnsýslunni. 

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan þingflokka, tók til máls um breytingatillöguna og sagð að af einhverjum óskiljanlegum ástæðum væru aðstoðarmenn undanskildir. Þetta sé ákvæði sem þurfi sérstaklega að ná til þeirra því sjaldgæft væri að æðstu embættismenn færu til starfa í hagsmunavörslu. Hinsvegar eigi það við um mjög marga aðstoðarmenn. Breytingatillagan var felld með 34 atkvæðum gegn 19. Einn greiddi ekki atkvæði. 

 

Þórhildur talaði einnig fyrir breytingartillögu um að ráðherrar þurfi að greina frá hagsmunum. Sú tillaga var felld með 35 atkvæðum gegn 18. Einn greiddi ekki atkvæði. 

Þá gerði Þórhildur grein fyrir atkvæði um 6. grein frumvarpsins og gagnrýndi að enginn taki það til skoðunar að eigin frumkvæði vakni grunur um brot æðstu handhafa framkvæmdavaldsins. Ráðherrar séu undanskildir eftirliti og það sé miður og því sitji Píratar hjá. 41 samþykkti sjöttu greinina, 14 greiddu ekki atkvæði. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV