Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki fyrsta skipan Páls sem veldur fjaðrafoki

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Kærunefnd jafnréttismála hefur komist að því að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hafi brotið jafnréttislög með skipan Páls Magnússonar, fyrrverandi bæjarritara í Kópavogi, í embætti ráðuneytisstjóra. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skipan Páls veldur fjaðrafoki.

1. nóvember 2019 var greint frá því að Páll hefði verið skipaður í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu til fimm ára. Fjórir af þréttán umsækjendur voru taldir mjög hæfir og það var svo Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, sem mat Pál hæfastan. 

Í gær var svo greint frá niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála, sem úrskurðaði að Lilja hafi brotið jafnréttislög með ráðningunni. Menntamálaráðherra hafi vanmetið Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu, í samaburði við Pál varðandi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika og hæfni til að tjá sig í riti.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, sagði í hádegisfréttum að ekki væri hægt að lesa annað en einbeittan brotavilja ráðherra úr niðurstöðu kærunefndarinnar. Lilja sendi hins vegar frá sér skriflega yfirlýsingu í gær þar sem hún sagðist hafa farið að ráðleggingum hæfnisnefndar um leið og hún lagði sjálfstætt mat á þær. 

Deilur sköpuðust innan Framsóknarflokksins

Páll var varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil í kringum aldamót og aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur ráðherra Framsóknarflokksins. Frá árinu 2006 hefur hann starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari hjá Kópavogsbæ.

Páll hefur að auki setið í ýmsum stjórnum, var meðal annars varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. frá 2003 til 2008. Þegar hann var skipaður stjórnarformaður Landsvirkjunnar árið 2007 varð úr því nokkur fjölmiðlamatur.

Hann tók við af Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni, sem sagður var settur af sem formaður gegn vilja sínum. Jón Sigurðsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, var sagður eiga upptökin að formannsskiptunum. Það skapaði deilur innan flokksins.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið sagði meðal annars að Siv Friðleifsdóttir, sem var heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins á þessum tíma, teldi skipun Páls aðför að sínum pólitíska ferli. Einnig var greint frá óánægju Sivjar í umfjöllun DV um málið.

Upp úr sauð eftir ráðningu forstjóra Bankasýslunnar

Heldur meiri gustur var um ráðningu Páls í starf forstjóra Bankasýslu ríkisins í lok september 2011. Ráðningin var afar umdeild. Fréttablaðið greindi frá því 7. október 2011 að þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, núverandi forseti Alþingis, ætlaði að óska eftir skýringum á ráðningarferlinu frá stjórn Bankasýslunnar. 

Helsta gagnrýnin sneri að því að Páll hafi verið aðstoðarmaður Valgerðar Sverrisdóttur sem var viðskiptaráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir. Helgi Hjörvar, sem þá var formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, var harðorður vegna þessa og sagði meðal annars að það væri hlutverk forstjóra Bankasýslunnar að halda bönkunum í armslengd frá stjórnmálum í landinu. 

25. október sagði Fréttablaðið svo frá því að stjórn Bankasýslunnar ætlaði að segja af sér vegna málsins. Það væri sérstaklega vegna viðbragða þingmanna við ráðningu Páls, en stjórnarmennirnir ítreki að ráðningin hafi verið fagleg. Stjórnarformaður Bankasýslunnar hafði meðal annars neitað því að tengsl Páls við einkavæðingu bankanna væri ókostur fyrir starfið.

Í kjölfarið samþykkti bæjarstjórn Kópavogs að Páll hætti við uppsögn sína sem bæjarritari sveitarfélagsins. Bæjarstjórnin harmaði jafnframt að persóna Páls hafi verið dregin fram og snúið á versta veg við ráðningu Bankasýslunnar.