Bryndís Lára í raðir Valskvenna

Mynd með færslu
Bryndís Lára hefur tekið hanskana af hillunni Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

Bryndís Lára í raðir Valskvenna

03.06.2020 - 17:00
Markvörðurinn Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir er gengin til liðs við Íslandsmeistara Vals. Hún mun veita landsliðskonunni Söndru Sigurðardóttur samkeppni um markvarðarstöðuna hjá félaginu í sumar.

Bryndís Lára er uppalinn hjá Ægi í Þorlákshöfn en varði mark ÍBV í efstu deild árin 2012 til 2016. Sumarið 2017 samdi hún við Þór/KA á Akureyri og varð Íslandsmeistari með liðinu það sumar. Eftir aðeins eitt tímabil og titil fyrir norðan tók hún sér pásu frá fótbolta. Hún sneri þó til baka sumarið 2018 þar sem hún lék fjóra leiki fyrir Þór/KA áður en hún skipti til ÍBV á miðju sumri.

Bryndís lék aftur fyrir norðan síðasta sumar en gat þó aðeins leikið 13 leiki af 18 vegna meiðsla. Bakmeiðsli hafa hrjáð hana í vetur en hún hefur enn ekki náð sér af þeim að fullu samkvæmt Fótbolti.net.

Sandra Sigurðardóttir hefur varið mark Vals frá árinu 2016 en liðið varð Íslandsmeistari á síðustu leiktíð. Bryndís mun nú veita henni samkeppni í sumar eftir að Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, varamarkvörður Vals frá síðustu leiktíð, var lánuð til ÍBV.

Valskonur hefja titilvörn sína er KR kemur í heimsókn á Hlíðarenda 12. júní næst komandi.